Einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 13:57:55 (7199)

2000-05-09 13:57:55# 125. lþ. 109.95 fundur 501#B einkaframkvæmd við byggingu og rekstur hjúkrunarheimilis í Sóltúni# (umræður utan dagskrár), Flm. ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 109. fundur, 125. lþ.

[13:57]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hæstv. heilbrrh. hóf mál sitt á því að sér þætti ómaklegar fullyrðingar mínar í ræðu sem ég flutti 1. maí um að innan stjórnsýslunnar væru á vegum ríkisstjórnarinnar aðilar sem greiddu götu fyrirtækja sem vildu komast yfir almannaeignir. Ég stend við þessar fullyrðingar.

Í öðru lagi ef það er svo að Framsfl. sjái ekki muninn á almannaþjónustu sem veitt er af aðilum sem sprottnir eru upp úr verkalýðshreyfingu eða samtökum sjúklinga annars vegar og hins vegar hlutafélaga sem eru að hasla sér völl á þessu sviði til að hafa af því arð, þá spyr ég á móti: Hver er munurinn á Framsfl. annars vegar og frjálshyggjudeild Sjálfstfl. hins vegar? Ég sé ekki þann mun.

Í þriðja lagi varðandi þá staðhæfingu hæstv. ráðherra að nú séu ekki tilfinningar heldur hlutlægt mat sem ráði för vil ég benda á að þegar reiknuð er út hjúkrunarþjónusta á hjúkrunarheimilum, þá er reiknað samkvæmt ákveðnum formúlum hversu margir tímar á viku fari í hvern einstakling, hvern vistmann. Samkvæmt útreikningum sem gerðar hafa verið, þá eru hjúkrunarstundir á Sóltúni 4,58 á viku, Hrafnistu í Hafnarfirði 4,84, Hrafnistu í Reykjavík 4,36. Hjúkrunarstundir á viku eru því mjög ámóta á þessum þremur hjúkrunarheimilum sem sýnir að rökin fyrir hærri daggjöldum á Sóltúni vegna erfiðari sjúklinga, sem kalla á meiri hjúkrun, stenst ekki. Ef eitthvað ætti að vera, þá ætti Hrafnista í Hafnarfirði að fá mest.

Í fjórða lagi er harmað að DAS skyldi ekki hafa boðið í þessa starfsemi en ég vil benda á að þar voru DAS reistar mjög strangar skorður, máttu ekki reikna með þeirri stoðþjónustu sem stofnunin hefur upp á að bjóða heldur var gert að stofna um það sérstakt fyrirtæki þar sem hvert seldi öðru. Þetta er augljóslega skattborgaranum í óhag.

Varðandi þá fullyrðingu sem fram kom hjá hv. þm. Jóni Kristjánssyni þá væri búið að bæta úr þessari þörf ef menn hefðu ráðist í þá byggingu sem stóð til að ráðast í á vegum Hrafnistu á sínum tíma. Niðurstaða mín, herra forseti, í lokaorðum er sú að við lítum á þetta sem svo alvarlegt mál að við höfum óskað eftir því við ríkisendurskoðanda að gerð verði rannsókn á málinu.