Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 15:35:31 (7217)

2000-05-09 15:35:31# 125. lþ. 110.23 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[15:35]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir brtt. og nál. um breytingu á lögum um verðbréfaviðskipti og breytingu á lögum um verðbréfasjóði. Ég mæli fyrir munn meiri hluta efh.- og viðskn.

Nefndin hefur fjallað um þetta mál og sent til umsagnar til aðila sem getið er um í nál. Með frv. er tekið á nokkrum atriðum sem komið hefur í ljós að þarf að þróa áfram í löggjöf okkar um verðbréfaviðskipti og nefndin hefur fjallað um.

Þá urðu í nefndinni miklar umræður um ýmis atriði sem tengdust þessu máli og önnur atriði en þau sem fram komu í frv. sem slíku, enda hafa málefni verðbréfamarkaðarins mikið verið til umfjöllunar að undanförnu.

Miklar umræður urðu t.d. um hvort unnt væri að setja í lögin heimild til handa ráðherra til að setja reglugerð um viðskipti fruminnherja. Varð niðurstaða meiri hlutans sú að leggja ekki til slíka breytingu á frv. Það er einfaldlega þannig að þær reglur sem hafa í för með sér mikla takmörkun á eignarrétti manna verða að hafa skýra lagastoð og Alþingi getur ekki framselt það opið til ráðherra til að ráðstafa slíku með reglugerðarheimild. Hæstaréttardómar sem nýlega hafa fallið staðfesta það.

Þá telur meiri hlutinn einnig óeðlilegt að ráðherra verði falið að setja reglugerð um þau atriði sem fjallað er um í 7. gr. frv. Þau mál þarf að taka upp með ákveðnari og beinni fyrirmælum í lögum. Í viðskrn. mun vera hafið nefndarstarf sem lýtur að því að smíða lagafrv. um þessi atriði og meiri hlutinn leggur áherslu á að þetta frv. verði tilbúið í upphafi næsta löggjafarþings og stefnt verði að því að það mál fái afgreiðslu helst í októbermánuði.

Það kom líka fram við meðferð málsins í nefndinni að jafnvel þótt opin reglugerðarheimild væri gefin til að fjalla um þau svið sem ég nefndi, þ.e. viðskipti fruminnherja og þau atriði sem kveðið er á um í 7. gr. frv., þá yrði slík reglugerð ekki tilbúin fyrr en í haust. Það er því bitamunur en ekki fjár á því hversu snemma þessir hlutir komast í gagnið í löggjöfinni.

Ég hygg að ekki sé mikill efnislegur ágreiningur um hvernig þessi löggjöf eigi yfirleitt að líta út, kannski meiri spurning um áherslur og aðferðafræði.

Meiri hluti nefndarinnar gerir tillögur til breytinga á frv. í sjö liðum:

Í 1. lið er brtt. við 1. gr. frv. þar sem bætt er inn hugtakinu afleiðusamningar.

Í 2. lið brtt. er umorðun á b-lið 2. gr. frv. þar sem kveðið er nákvæmar á um skýringar á hugtökum.

Í 3. lið er brtt. við 5. gr. frv. sem er umorðun á þeirri grein og er ekki í sjálfu sér mikil efnisleg breyting en þó þannig að í reglugerð skuli kveða á um prófkröfur og heimildir til að veita undanþágur frá einstökum hlutum slíks prófs eða prófi í heild ef aðili hefur lokið jafngildu námi. Greinin er umorðuð að þessu leyti.

Í 4. lið brtt. er gerð tillaga til breytingar á 7. gr. frv. Í stað þess að 7. gr. snúist um 20. gr. laganna er þar kveðið á um breytingar á 18. gr. laganna og bætist við svohljóðandi málsliður: ,,Sama gildir varðandi vitneskju eða grun um að viðskipti brjóti gegn 30. gr.`` Þetta eru ákvæði sem snúast um að auka ábyrgð fyrirtækja í verðbréfaþjónustu varðandi bann við milligöngu þar sem grunur er um brot á reglum um meðferð trúnaðarupplýsinga. Kveðið er á um skyldur fyrirtækja í verðbréfaþjónustu til að tilkynna Fjármálaeftirlitinu ef grunur vaknar um að viðskipti grundvallist á trúnaðarupplýsingum eða um sé að ræða sýndarviðskipti. B-liður brtt. fjallar einnig um sama atriði.

Í 5. lið brtt. eru orðalagsbreytingar á 8. gr. frv.

Í 6. lið er brtt. við 9. gr. sem felst einungis í því að setja Fjármálaeftirlitið inn fyrir bankaeftirlitið sáluga.

Í 7. lið brtt. er tillaga um breytingu á 13. gr. þar sem fjallað er um gildistöku laganna. Þar er gert ráð fyrir að fyrirtæki í verðbréfaþjónustu skuli hafa aðlagað starfsemi sína 5. gr. laga þessara fyrir 1. janúar 2002 en í 5. gr. er einmitt fjallað um menntunarkröfur til starfsmanna fyrirtækja í þessum viðskiptum.

Í meiri hluta nefndarinnar eru auk mín hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Sigríður Anna Þórðardóttir, Pétur H. Blöndal og Gunnar Birgisson.