Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 16:57:35 (7219)

2000-05-09 16:57:35# 125. lþ. 110.23 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[16:57]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir ágætt starf að þessu frv. Ég held að það hafi sýnt sig, bæði í starfi hennar að málinu og eins ræðu hennar að efnislega beri ekki svo mikið á milli. Ég held að við séum bæði miklir áhugamenn um framþróun á verðbréfamarkaðnum. Tillögur hv. þm. sem hún hér lýsti eru flestar um atriði sem mikið er fjallað þessa dagana og margar alveg ágætar.

Spurningin er hins vegar um tæknilegar útfærslur og hvort sum atriði eigi betur heima í lögum eða reglugerðum og hvernig löggjöfin er búin. Við erum bæði áhugamenn um vandaða löggjöf. Ég held að það sem máli skiptir sé að eftir standi að löggjöfin sé vönduð, að hægt sé að starfa eftir henni og þokkalegur friður ríki um hana á fjármagnsmarkaðnum. Ég treysti því að næsta haust, þegar okkar vaski hæstv. viðskrh. er búinn að leggja fram frv. um þetta mál, muni ekki standa á hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur að taka þátt í að klára það fljótt og afgreiða helst fyrir októberlok.

Varðandi fund í efh.- og viðskn. þá kemur að sjálfsögðu til greina að halda fund í nefndinni. Ég veit það að hv. þm. er alltaf tilbúinn til að mæta á þá fundi að nóttu sem degi.