Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 16:59:37 (7220)

2000-05-09 16:59:37# 125. lþ. 110.23 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[16:59]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. formanni efh.- og viðskn. hlý orð í minn garð. Það er alveg rétt sem hann nefndi að ég væri tilbúin að mæta hvort sem væri að nóttu eða degi til að afgreiða það mikilvæga mál sem liggur eftir í efh.- og viðskn. Ég tek það sem svo, vegna þess sem hv. formaðurinn nefndi hér áðan, að til fundarins verði boðað. Ég legg þá fram þessa formlegu ósk, að boðað verði til fundarins til að ræða þetta mál. Ég heyri að af hálfu hv. formanns nefndarinnar er ekkert því til fyrirstöðu að verða við þeirri ósk.

[17:00]

Að vísu hefði ég viljað heyra betur frá formanni nefndarinnar hverjar líkur væru á því að hans mati að ná fram málinu. Við erum að fjalla um stjfrv., það er ekki einu sinni svo að ég sé að reyna að pína hv. formann nefndarinnar til að ná út einhverju stjórnarandstöðumáli heldur er um stjórnarmál að ræða, stjfrv. sem hörð átök eru um milli stjórnarflokkanna. Ég vona bara af því að ég þekki hv. formann nefndarinnar að því að hann sýni það í verki að hann flytji þetta mál alla leið hingað til þingsins aftur og við fáum að greiða atkvæði um það en það standi ekki upp úr í umræðunni um þetta mál sem og það mál sem við erum að fjalla um núna, um verðbréfaviðskipti, að hæstv. ráðherra eigi sér meiri vini í stjórnarandstöðunni en í stjórnarliðinu. Hæstv. ráðherra getur greinilega bæði í þessu frv. um verðbréfaviðskipti og um samkeppnislöggjöfina treyst miklu fremur á stuðning okkar í stjórnarandstöðunni en í stjórnarliðinu. Ég vona því að það gangi ekki eftir eftir þessa umræðu.