Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 17:12:34 (7227)

2000-05-09 17:12:34# 125. lþ. 110.24 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, Frsm. meiri hluta VE
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[17:12]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. og brtt. frá meiri hluta efh.- og viðskn. við frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, sem orðnar eru allmargar frá því að lögin voru upphaflega sett.

Nefndin hefur unnið málið með því að senda það til umsagnar til margra aðila og fengið þá sem sendu inn umsagnir á fund sinn eins og getið er í nál. Að sjálfsögðu eru lagðar til nokkrar breytingar á skattalögunum í frv. en nefndin gerir brtt. við frv. í einum sjö liðum sem ég mun gera grein fyrir.

Í 1. lið brtt. er lagt til að 1. gr. falli niður eins og hún stendur en að tekið verði inn nýtt ákvæði sem fjalli um að heimilt skuli vera að draga frá tekjum meðlög sem samsvara fyrst meðlagi sem nemur fjárhæð barnalífeyrisins og síðan til viðbótar það sem úrskurðað er að auki. Þó getur heildarfrádráttur vegna meðlags ekki orðið hærri en tvöföld fjárhæð barnalífeyris.

Þetta kemur í veg fyrir að meðlagsgreiðslur séu tvískattaðar, að greiddur sé skattur af þeim hjá meðlagsgreiðandanum og meðlagsviðtakandanum líka. Slíkt væri að sjálfsögðu í algjöru ósamræmi við tilgang meðlaganna sem er þátttaka í kostnaði á framfærslu barna.

[17:15]

Í 2. lið brtt. eru ýmsar orðalagsbreytingar sem eru til skýringar á þeim ákvæðum sem fjalla um kauprétt og skattalega meðferð kaupréttar á hlutabréfum.

Í 3. lið brtt. er tillaga til breytinga á 3. gr. frv. að hún orðist svo: ,,Framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda samkvæmt lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.`` Það er ekki talið til tekna hjá launþega, nema í undantekningartilvikum sem ég rek nú. Það skal talið til tekna, þ.e. ,,framlag launagreiðanda til öflunar lífeyrisréttinda til skattskyldra tekna ef iðgjaldagreiðslur frá launagreiðanda eða sjálfstætt starfandi manni skapa réttindi til greiðslu ellilífeyris umfram þau meðallaun sem greitt hefur verið af síðustu fimm ár miðað við að ellilífeyrir sé tekinn með jöfnum greiðslum frá 65 ára aldri. Við mat á réttindum til ellilífeyris skal miðað við að áfram sé greitt í lífeyrissjóð af meðallaunum síðustu fimm ára eftir því sem lög eða kjarasamningar mæla fyrir um.``

Með þessu er sett ákveðið þak á hvað þetta skattfrestunartæki getur virkað hátt og hvernig í rauninni hægt sé að nota það til að mynda sér lífeyrisréttindi.

Síðasti málsliðurinn í þessari brtt. er á þessa leið: ,,Hafi í kjarasamningum verið samið um iðgjald í lífeyrissjóð eða það bundið í lögum skal það aldrei teljast til skattskyldra tekna.``

Meginbreytingin frá því sem var í frv. felst í því að frv. gerði ráð fyrir því að allar iðgjaldagreiðslur sem renna frá launagreiðanda til lífeyrissjóðs yrði taldar til skattskyldra tekna hjá launþeganum en síðan væri ákveðið þak á hvað launþeginn gæti dregið mikið frá skatti. Þessu er breytt þannig að þetta framlag launagreiðanda er ekki talið til tekna hjá launþeganum nema með þeirri undantekningu sem ég rakti en framlag launagreiðenda til öflunar lífeyrisréttinda verður þó ávallt frádráttarbær rekstrarkostnaður.

Í 4. lið brtt. eru breytingar á 4. gr. frv. sem eru þá í samræmi við það sem ég hef rakið vegna breytinga í 3. lið. Þá verður 4. gr. einungis þannig þau 2% sem heimilt hefur verið að draga sérstaklega frá til viðbótar hjá launþegum í viðbótarsparnað, hækka í 4%.

Í 5. lið brtt. er einungis tæknileg breyting, þ.e. að bæta við tilvísun til kauphallar á Evrópska efnahagssvæðinu.

Í 6. lið brtt. er kveðið á um að lífeyrisiðgjöld sem fyrirtæki greiða séu frádráttarbær rekstrarkostnaður og í 7. lið brtt. er fjallað um að hnykkja á því hvernig farið skuli með beiðni um bindandi álit sem fjallar um hvernig farið skuli með á yfirgangstímanum með hliðsjón af þeim breytingum sem lagðar eru til í 11. gr. frv.

Virðulegi forseti. Undir þetta nál. rita auk mín hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Sigríður Anna Þórðardóttir, Pétur H. Blöndal sem hefur fyrirvara og Gunnar Birgisson.