Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 17:52:58 (7229)

2000-05-09 17:52:58# 125. lþ. 110.24 fundur 547. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (hlutabréf, lífeyrisiðgjöld o.fl.) frv. 86/2000, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[17:52]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég hefði kosið að lagabreytingarnar sem fram koma í því frv. sem hér liggur fyrir hefðu komið fram í tveimur aðskildum frv. því að sumar þessara breytinga eru jákvæðar og þess virði að veita stuðning, aðrar eru mjög neikvæðar.

Í fyrsta lagi tel ég mjög æskilegt að gera þá breytingu á tekjuskattslögunum sem heimili aukinn sparnað, lífeyrissparnað, og niðurfellingu eða öllu heldur frestun á skattlagningu tekna sem látnar eru renna inn í lífeyrissjóði. Samkvæmt núgildandi lögum eru iðgöld til sameignarsjóða, lífeyrissjóða, skattfrjáls og ekki alls fyrir löngu var lögum breytt í þá veru að 2% til viðbótar skyldu undanþegin skatti og með þeirri breytingu sem hér er verið að gera er sú skattprósenta hækkuð í 4%. Þessu er ég mjög fylgjandi, enda þótt þetta gæti haft veruleg áhrif á tekjustreymið til ríkissjóðs en samkvæmt mati fjmrn. gæti hér verið um að ræða 500--600 millj. kr. Það eru miklar upphæðir að sönnu. En þá ber að hafa í huga að þessir fjármunir kæmu til skattlagningar síðar þegar þeir kæmu út úr lífeyrissjóðunum að nýju, þegar einstaklingarnir fengju þá í eigin vasa.

Upphaflega þegar frv. kom fram var gert ráð fyrir því að hafa þetta hlutfall hærra og jafnvel heyrðust þær raddir að óeðlilegt væri að setja nokkurt þak á skattfrelsi þeirra fjármuna sem rynnu til lífeyrissjóða og það má vissulega færa rök fyrir því að það væri eðlilegt einfaldlega vegna þess sem ég nefndi, að hér er fyrst og fremst um skattfrestun að ræða. Þegar til lengri tíma er litið ættu þau rök við. Hins vegar þarf einnig að huga að skammtímahagsmunum ríkissjóðs og í ljósi þeirra hagsmuna styð ég að hafa prósentuna í því marki sem hún er sett þarna fram.

Það eru önnur atriði í frv. sem eru mjög til bóta. Þannig kemur frv. til móts við ágætt frv. sem lagt var fram af hálfu hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og annarra þingmanna Samfylkingarinnar um að meðlagsgreiðslur umfram lágmarksmeðlög verði ekki skattlagðar. Hér má færa rök fyrir því að um tvísköttun sé að ræða vegna þess að einstaklingurinn sem lætur þessa fjármundi af hendi rakna, faðirinn, hefur áður verið skattlagður fyrir þá peninga. Það er mjög gott og lofsvert að meiri hluti efh.- og viðskn. skuli hafa fallist á að taka þetta frv. sem hér var lagt fram og hefur ekki verið mælt fyrir, ekki gefist tóm til þess, inn í þessar lagabreytingar. Ég fagna því að sjálfsögðu. Þessum þáttum frv. fagna ég og styð heils hugar.

Hvað aðra þætti frv. snertir þá er ég ekki eins upprifinn yfir þeim og ætla ég að víkja örfáum orðum að þeim, en vil áður nefna að í umsögnum samtaka launafólks um þetta frv. kemur fram stuðningur við þá breytingu á lögunum sem heimila frádrátt af skattskyldum tekjum til öflunar lífeyrisréttinda. Þannig segir í álitsgerð BSRB, með leyfi forseta:

,,BSRB er fylgjandi tillögu um breytingu á skattalögum um heimildir til að draga frá skattskyldum tekjum iðgjöld og framlög til öflunar lífeyrisréttinda.

Miklu máli skiptir þó hvernig að slíku er staðið og er ljóst að hið opinbera gæti orðið fyrir umtalsverðu tekjutapi. Áður en ráðist er í þessar breytingar er brýnt að fram komi hvernig það verði bætt.``

Hér er tekið undir þær áhyggjur og þau varnaðarorð sem við höfum haft uppi og við höfum bent á í þessu sambandi, þ.e. að skattabreytingar samkvæmt frumvörpum ríkisstjórnarinnar munu hlaupa á milljörðum kr. Þannig er reiknað með því að breytingar á persónuafslætti muni draga úr tekjustreymi til ríkissjóðs um 900--1.200 milljónir. Öllu heldur væri nær að setja dæmið öðruvísi upp og segja að ríkissjóður gæti aflað þessara fjármuna með því að frysta skattleysismörkin. Það teldi ég hins vegar óeðlilegt enda hef ég stutt heils hugar að persónuafslátturinn verði hækkaður að lágmarki til samræmis við lágmarksumsamda kjarasamninga, umsamda kjaraþróun, þannig að ég hef verið mjög fylgjandi því.

Varðandi breytingar á vörugjaldi af bifreiðum þá ætla menn að þar dragi úr tekjum til ríkissjóðs um 300--350 millj. kr., breytingar á vörugjaldi af bifhjólum og vélsleðum 50--60 millj. kr., breyting á lögum um vörugjald 150 millj. kr. Þar vógu vörugjöldin af rafmagnsvörunum þyngst. Við vorum með þau til umfjöllunar og atkvæðagreiðslu í dag, líka byssurnar, marghleypurnar og byssustingina, poppkornið og saltstangirnar. En það frv. gerir ráð fyrir tekjusamdrætti hjá ríkissjóði um 150 millj. kr.

[18:00]

Vegna breytinga á lögum um virðisaukaskatt fer ríkissjóður 100 millj. kr. í mínus og vegna breytinga á lögum um tryggingagjald 180 millj. kr. til viðbótar. Þetta frv. sem hér er til umfjöllunar mun að öllum líkindum leiða til samdráttar hjá ríkinu um 500--600 millj. kr. en þar er um frestun á skatttekjum að ræða.

Þetta kemur fram í áliti BSRB. Álitsgerð ASÍ er mjög í sömu veru en þar segir, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands er hlynnt þessari breytingu en telur jafnframt nauðsynlegt að ljóst sé hvernig bæta eigi hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, það tekjutap sem það verður fyrir vegna þessarar breytingar. Hér getur verið um að ræða nokkurra milljarða króna tekjutap.``

Álitsgerðin var send til efh.- og viðskn. áður en horfið var frá því að hafa hærra þak á skattafslættinum en reyndin er í frv. eins og það liggur nú fyrir.

Aðrir þættir frv. eru einnig mjög gagnrýnisverðir. Í fyrsta lagi er um að ræða frádrátt vegna fjárfestinga í hlutabréfum. Ég ætla að leyfa mér að vitna hér í álitsgerð ASÍ en þar segir, með leyfi forseta:

,,Í frv. er lagt til að reglur um frádrátt vegna fjárfestinga í hlutabréfum verði rýmkaðar þannig að heimildin verði ekki bundin því að fjárfest sé í innlendum hlutabréfum heldur nái hún einnig til fjárfestinga í erlendum hlutabréfum. Rök frumvarpshöfunda fyrir þessari breytingu eru að núverandi framkvæmd feli í sér mismunun á milli innlendra og erlendra fjárfestingarkosta og sé því óheimil samkvæmt skuldbindingum Íslands vegna EES-samningsins. Markmiðið með því að leyfa einstaklingum að draga frá tekjum sínum fjárfestingar í innlendum hlutabréfum hefur fyrst og fremst verið að styðja við íslenskt atvinnulíf. Árið 1994 var t.d. hætt við að þrepa frádráttinn niður í áföngum og var það hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar við endurmat kjarasamninga ASÍ í maí 1994. Ástæðan var sú að atvinnuleysi var þá mikið hér á landi og nauðsynlegt var talið að örva fjárfestingar í íslensku atvinnulífi.``

Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands er þess vegna mótfallið því að sú mismunun sem vissulega er fyrir hendi nú verði leyst þannig að einnig verði leyfður frádráttur frá tekjum einstaklinga vegna fjárfestinga í erlendum hlutabréfum. Alþýðusambandið telur að þá mismunun eigi að leysa með því að afnema frádrátt vegna hlutabréfakaupa alfarið þar sem efnahagsástand sé nú allt annað en það var þegar horfið var frá því að afnema hlutabréfaafsláttinn 1994.``

Í umsögn BSRB eru mjög svipuð viðhorf uppi. Í henni segir, með leyfi forseta:

,,Frv. gerir ráð fyrir því að rýmkaðar verði reglur um frádrátt frá skatti vegna fjárfestinga í innlendum hlutabréfum á þann veg að heimildin nái líka til fjárfestinga í erlendum hlutabréfum. Rökin fyrir breytingartillögunni eru þau að ekki sé heimilt samkvæmt skuldbindingum Íslands vegna EES-samningsins að mismuna milli erlendra og innlendra aðila. Tilgangurinn með því að heimila einstaklingum að draga frá tekjum fjárfestingar í innlendum hlutabréfum hefur verið að styðja íslenskt atvinnulíf. Nú er allt önnur staða uppi í efnahagslífi þjóðarinnar en var þegar afslátturinn var tekinn upp og forsendur fyrir honum eiga ekki við ef hann á að gilda um erlenda aðila einnig. BSRB leggur til að afnema afsláttinn vegna hlutabréfakaupa frekar en að rýmka hann til þess að uppfylla skuldbindingar vegna EES-samningsins.``

Undir þessar álitsgerðir ASÍ og BSRB tek ég heils hugar. Ég tel alveg fráleitt að koma fram með frv. sem gerir ráð fyrir enn frekari stuðningi við hlutabréfakaup. Ég ætla nú ekki að nota hugtakið brask þó að það sé mér ofarlega í sinni þegar ég horfi á það sem er að gerast á hlutabréfamarki. Ég hefði haldið að það væri ekki til góðs fyrir nokkurn og allra síst ríkissjóð sem hefur nóg með peningana að gera og ætti að sjá sóma sinn í því, og þeir sem þar halda um stjórnvölinn, að beina fjármagni úr honum til öryrkja og atvinnulausra, til lágtekjufólks og annarra þeirra sem sárlega þurfa á peningum að halda í stað þess að niðurgreiða hlutabréfabrask. Þetta er forgangsröðun sem mér er ekki að skapi en mjög í ætt við það sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir í þeim skattbreytingarfrumvörpum sem hún hefur staðið fyrir og stendur fyrir.

Hitt meginefnið í þessu frv. sem ég tel ámælisvert lýtur að skattalegri meðferð kaupréttar- eða valréttarsamninga sem gerir ráð fyrir því að tekjur starfsmanna af kaupum á hlutabréfum samkvæmt kauprétti verði ekki skattlagðar sem launatekjur heldur sem fjármagnstekjur. Þetta þýðir að með frv. er verið að ívilna hlutafélögum sem vilja greiða starfsmönnum sínum í formi hlutabréfa, selja þeim hlutabréf á hagstæðum kjörum í stað þess að greiða þeim laun. Síðan búa þeir svo um hnútana með hjálp vina sinna í ríkisstjórn að af þessu verði ekki greiddir eðlilegir skattar. Út á það gengur þetta ,,fiff`` sem er að finna í frv. Þetta gagnrýnum við að sjálfsögðu harðlega. Við tökum undir þá gagnrýni sem fram kemur í umsögn BSRB sem mælir mjög eindregið gegn samþykkt þessa hluta frv. Hið sama er uppi á teningnum hjá ASÍ. Hér segir, með leyfi forseta:

,,Alþýðusamband Íslands leggst alfarið gegn því að sú undantekning frá meginreglu tekju- og eignarskattslaganna sem lögð er til í frumvarpinu verði samþykkt.``

Ég vil taka það sérstaklega fram að í umræðu um þetta mál í efh.- og viðskn. þingsins kom fram, af hálfu þeirra sem beita sér fyrir þessum breytingum, talsmanna hlutafélaganna, hverja þeir höfðu í huga sem mundu njóta þessara skatt\-ívilnana. Það var ekki lágtekjufólkið. Það var hátekjufólkinu innan hlutafélaganna sem þeir ætluðu að ívilna með þessum hætti. Þeir ætluðu að fá tilstyrk og liðsinni frá ríkissjóði, frá skattborgaranum til slíkra verka.

Þetta finnst mér hreinlega ósæmilegt. Mér finnst þetta ósæmilegt á sama tíma og öryrkjum, atvinnulausum og láglaunafólki eru búin þau kjör á Íslandi sem raun ber vitni. Á meðan því verður ekki þokað að mannréttindi séu virt gagnvart öryrkjum sem eru færðir niður í tekjum við það eitt að vera í hjónabandi eða í sambúð niður í 16.000 kr. tæpar á einum mánuði, á meðan ekki fæst nein breyting á þessum hlutföllum er ætlunin að ívilna hátekjufólki hjá hlutafélögum. Mér finnst þetta, herra forseti, ekki vera sæmandi.

Ég mun greiða atkvæði gegn þessum tveimur hlutum frv. sem ég hef gert hér að umræðuefni. Annars vegar er ég á móti stuðningi og niðurgreiðslum, aðstoð við fólk sem er að festa kaup á hlutabréfum í útlöndum. Ég er því algerlega andvígur að ríkissjóður komi þar við sögu. Ef samræma þarf gagnvart heilögu testamenti hins Evrópska efnahagssvæðis til að mismuna ekki ber hreinlega að afnema þennan stuðning ríkissjóðs við hlutabréfakaup hér innan lands. Reyndar er löngu kominn tími til að svo verði gert, að sá stuðningur verði afnuminn Þetta átti hugsanlega við --- hugsanlega segi ég --- á þeim tíma sem hér var samdráttur í efnahagslífi og menn vildu stuðla að fjárfestingum í innlendri atvinnuuppbyggingu. Þá átti þetta hugsanlega við þótt ég skuli alveg gera þá játningu að ég var þessu alltaf andvígur. Ýmsir færðu rök fyrir því að það gæti verið eðlilegt á þeim tíma. En nú um stundir er fráleitt og með öllu ósæmilegt að grípa til þessara ráðstafana með þeim lagabreytingum sem hér liggja fyrir.

Að lokum, herra forseti, vil ég minna á að við í minni hlutanum flytjum brtt. við frv. sem felur það í sér að mikil hækkun á fasteignamati skerði ekki barna- og vaxtabætur. Í álitsgerð sem ég skrifa undir auk hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, sem hafði framsögu fyrir okkar hönd, og hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur beitt sér mjög í þessum málum, kemur þetta fram. Hér segir, með leyfi forseta, m.a.:

,,Ráðgjafarstofa heimilanna hefur vakið athygli á því að fasteignamat eigna á höfuðborgarsvæðinu hafi hækkað 1. desember 1999 um 18%, en hækkun á eignaviðmiðun skattalaga hækkar aðeins um 2,5% milli ára. Miðað við að eignarskattsstofn, þ.e. eignir að frádregnum skuldum, hækki um 10% milli áramótanna 1998--1999 og 1999--2000, gerir Þjóðhagsstofnun ráð fyrir að barnabætur skerðist um 15 millj. kr. og vaxtabætur um 70 millj. kr. Í brtt. minni hlutans er gert ráð fyrir að eignarskattsstofn að frádregnum skuldum hækki um 15% milli ára sem ætla má að sé raunhæfara miðað við 18% hækkun á fasteignamati eigna.``

Þetta er í grófum dráttum sú afstaða sem ég hef til þessa frv. Ég styð eindregið þær tillögur sem hér koma fram varðandi skattalega meðferð á meðlagsgjöldum og meðlagsgreiðslum sem eru í samræmi við frv. sem hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt hér í þinginu en ekki hefur gefist tóm til að ræða. Ég styð þá tillögu að lagabreytingu að heimila skattafslátt af iðgjöldum til lífeyrissjóða, hækka mörkin úr 2% í 4%. En ég er mjög andvígur stuðningi og niðurgreiðslum við hlutabréfakaup á erlendri grundu og finnst nú annað við peningana að gera en að ívilna tekjuhæsta fólki í hlutafélögum landsins.