Loftferðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:12:03 (7239)

2000-05-09 20:12:03# 125. lþ. 110.22 fundur 250. mál: #A loftferðir# (gjaldtökuheimildir o.fl.) frv. 74/2000, JB
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:12]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Hér er til umræðu frv. til laga um breytingu á lögum um loftferðir þar sem verið er að leggja til aukna skattheimtu á þessa almenningsþjónustu í landinu.

Það verður að segjast eins og er, herra forseti, að við hefðum gjarnan viljað vera að fjalla um aðra aðkomu ríkisins að samgöngum með flugi innan lands en ræða um aukna skattheimtu. Við horfum upp á það að hver flugleiðin á fætur annarri leggst af vegna þess að þeir sem þar eru í flugrekstri sjá ekki rekstrargrundvöll fyrir það flug. Kveðjurnar frá hv. Alþingi eru að hækka gjöldin á innanlandsflugið.

Áætlunarflug innan lands hefur fram til þessa ekki notið nema afar takmarkaðra styrkja eða beinna fyrirgreiðslna af hálfu hins opinbera en er þó alþekkt í nágrannalöndum okkar þar sem nauðsynlegt er að halda uppi flugsamgöngum um allt landið þó svo að einstaka flugleið reynist ekki arðbær út frá þeim reiknireglum sem flugrekstraraðilar setja sér fyrir slíkt flug.

Ég vek athygli á því, herra forseti, að hér er um skattlagningu að ræða. Ekki er verið að innheimta gjöld vegna beinnar tilgreindrar þjónustu, ekki á móti neinum tilgreindum kostnaði heldur er þarna um að ræða skattheimtu. Jafnframt hefur það komið fram, eins og hv. þm. Kristján Möller vitnaði einmitt til, að aðilum sem þetta snertir var tilkynnt það á fundi með samgrn. 19. ágúst 1999 að þetta væri aðeins fyrsta stig slíkrar innheimtu. Það er því ljóst, ef ekki verður þarna veruleg stefnubreyting að ætlunin er að hækka gjaldið enn á næstunni og sjálfsagt að stefna að því að fá að fullu greiddan þann kostnað sem talinn er fylgja flugleiðsögunni með gjöldum á flugreksturinn, þ.e. um 180 millj. kr.

[20:15]

Ég mótmæli þessari fyrirætlan. Ég mótmæli þessari stefnu sem stjórnvöld hafa gagnvart flugsamöngum í landinu og hvet eindregið til þess að önnur aðkoma verði að áætlunarflugi og samgöngum í flugi á landinu en þetta frv. til laga gefur tilefni til.

Ég vil benda á að flestallir aðilar sem hafa gefið umsögn um þetta mótmæla eindregið þessari skattlagningu. Flugleiðir mótmæla henni. Íslandsflug mótmælir henni. Samtök ferðaþjónustunnar mótmæla henni afar harðlega og segja reyndar að þessi skattlagning gangi í berhögg við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um eflingu ferðaþjónustu í landinu og eflingu samgangna til þess að styrkja ferðaþjónustuna. Skattheimtan sem hér er verið að leggja til gengur því, herra forseti, í berhögg við yfirlýsta stefnu stjórnvalda um að styrkja almenningssamgöngur, um að styrkja ferðaþjónustu í landinu.

Það er því hörmulegt til þess að vita að það skuli vera viðbrögð hv. Alþingis að íþyngja þessum samgöngum enn, og aðeins með fyrsta stigi boðaðar auknar álögur ef fram verður haldið sem hér er stefnt til, og því er ég algjörlega andvígur.