Álagning gjalda á vörur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:30:59 (7242)

2000-05-09 20:30:59# 125. lþ. 110.25 fundur 500. mál: #A álagning gjalda á vörur# (breyting ýmissa gjalda) frv. 104/2000, fjmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:30]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde) (andsvar):

Herra forseti. Þetta frv. gengur út á að lögfesta þá álagningu gjalda sem felst í þeim lagabálkum sem hér er um að ræða og afnema rétt ráðherra til að leggja á gjöld með þeim hætti sem áður var. Þetta er auðvitað liður í ákveðinni lagahreinsun í kjölfar stjórnarskrárbreytingarinnar 1995.

Í dag vantar í lögin grundvöll fyrir heimildir ráðherra til niðurfellingar eða álagningar þessa svokallaða áfengisgjalds. Hugmyndin í upphaflega frv. var auðvitað sú að í stað þess að leggja gjald á vörur sem fara inn á tollfrjálst svæði þá yrði álagningin í versluninni, sem er í eigu ríkisins, látin standa undir því eða annar ávinningur af þessum rekstri. Þannig var það alls ekki hugmyndin að þetta yrði tekjurýrnun fyrir ríkissjóð.

Eftir að hitt frv. kom til skjalanna, um að breyta Leifsstöð í hlutafélag, er ljóst að beita þarf öðrum ráðum. Það er hægt að gera. Hv. þm. var áðan að biðja mig um að hlusta og ég sný þessu nú við og bið hv. þm. að hlusta. Þeim tekjum er hægt að ná t.d. með hlutdeild í flugvallarskatti eða öðrum þeim tekjum sem ríkið hefur af þessu hlutafélagi. Auðvitað er alveg ljóst að ætlunin er ekki að afsala hér einhverjum 150--170 milljónum í hendurnar á nýju hlutafélagi, jafnvel þó að það verði í eigu ríkisins að því er þetta varðar. Ég vil gjarnan upplýsa að það er á hreinu að þarna er ekki um neina tekjurýrnun fyrir ríkissjóð að ræða frekar en almennt í þessu frv. nema að því er varðar björgunarsveitirnar.