Álagning gjalda á vörur

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:33:08 (7243)

2000-05-09 20:33:08# 125. lþ. 110.25 fundur 500. mál: #A álagning gjalda á vörur# (breyting ýmissa gjalda) frv. 104/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:33]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Reyndar rakti ég í mínu máli hver urðu afdrif tekjustofns sem Ferðamálaráð eða ferðaiðnaðurinn hafði í Fríhöfninni áður fyrr sem gufaði síðan upp. Góður ásetningur kann því að reynast haldlítill þegar á reynir. Ég óttast að svo kunni að fara með þessu þótt mér sé fyllilega kunnugt um ásetning hæstv. fjmrh.

Í lögunum er nú heimildarákvæði, eins og hæstv. ráðherra gat um, til að leggja á þessi gjöld. Ég hefði talið eðlilegt að halda því heimildarákvæði áfram inni í lögunum en fella það ekki niður með þeim lagabreytingum sem hér er verið að leggja til. Ég hefði talið að eitt ætti yfir alla að ganga í þessum efnum, Fríhöfn sem aðra aðila. Þetta ætti að vera gjald sem alls staðar væri innheimt. Ég endurtek að mér finnst það mjög mikilvægt á þessari óvissustundu. Við stöndum frammi fyrir því að gera Leifsstöð að hlutafélagi eins og hæstv. utanrrh. leggur til með það fyrir augum að selja stofnunina. Endanleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um það en hæstv. utanrrh. segir að það komi mjög vel til greina. Hann hefur lýst því yfir hér á Alþingi og í fjölmiðlum en ég segi: Á þessari stundu skulum við halda inni heimildarákvæðinu fyrir fjmrn. í stað þess að fella ákvæðin brott úr lögunum með öllu.