Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 20:57:20 (7255)

2000-05-09 20:57:20# 125. lþ. 110.31 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, Frsm. meiri hluta HjálmJ
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[20:57]

Frsm. meiri hluta landbn. (Hjálmar Jónsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.

Landbn. hefur fjallað um frv. til laga um breyting á lögunum sem ég áður nefndi. Frv. er flutt til að lögfesta tiltekin ákvæði sem er að finna í samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða. Sá samningur var undirritaður 11. mars á þessu ári. Samningurinn tekur við af samningi frá 1. okt. 1995 um framleiðslu sauðfjárafurða og sá samningur rennur út um næstu áramót.

Þó svo að hv. landbn. bærist frv. um breyting áðurnefndra laga ekki fyrr en fyrir mánuði síðan til umfjöllunar hefur nefndin lagt kapp á að afgreiða málið á þessu löggjafarþingi. Sauðfjárbændur verða að hefja aðlögun að nýjum búvörusamningi þegar á þessu vori með tilliti til búskaparáforma svo sem áburðarkaupa og í framhaldi af því ákvörðun um ásetning og framleiðslu ársins 2001.

Nefndin fékk á á sinn fund Guðmund Sigþórsson og Sigríði Norðmann frá landbúnaðarráðuneyti, Sveinbjörn Eyjólfsson, aðstoðarmann landbúnaðarráðherra, Ara Teitsson, Ernu Bjarnadóttur og Sigurgeir Þorgeirsson frá Bændasamtökum Íslands og Þórólf Sveinsson og Snorra Sigurðsson frá Landssambandi kúabænda. Umsagnir bárust um málið frá landbúnaðarnefnd Vopnafjarðar, Þjóðhagsstofnun, Samtökum verslunar og þjónustu og meiri hluta og minni hluta stjórnar Framleiðnisjóðs landbúnaðarins. Þá bárust nefndinni minnisblöð og erindi frá Bændasamtökum Íslands, landbúnaðarráðuneytinu og Landssambandi kúabænda.

Við yfirferð frv. hefur það legið ljóst fyrir að sá samningur sem gerður var milli Bændasamtakanna og ríkisstjórnarinnar nýtur verulegs stuðnings sauðfjárbænda í landinu. Samningurinn var lagður fyrir sauðfjárbændur til atkvæðagreiðslu sem ekki hefur verið gert við fyrri samninga um sauðfjárrækt. Hann hlaut stuðning tæplega 64% þeirra sem atkvæði greiddu en þátttaka í atkvæðagreiðslunni var góð.

[21:00]

Af útkomunni sést að það er mat sauðfjárbænda að með þessum samningi séu þeim tryggð starfsskilyrði til næstu sjö ára, þ.e. þeirra ára sem samningurinn nær til. Þeir telja hann ásættanlegan fyrir búgreinina, muni styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda eins og að er stefnt og er yfirlýstur tilgangur samningsins og laganna.

Stjórnvöld hafa við samningagerðina gengið langt í þá átt að styrkja markaðsstöðu og samkeppnishæfni sauðfjárræktarinnar með þeim árlegu fjárframlögum sem samið hefur verið um og tímabundnum styrkjum til uppkaupa og hagræðingar í greininni.

Þó að stuðningur til sauðfjárbænda í formi beingreiðslna til bænda sé ekki markaðstengdur leiðir það af sjálfu sér að sauðfjárbændum er unnt að selja afurðir sínar á lægra verði en ella þar sem beingreiðslurnar bæta afkomu búsins. Hlutur beingreiðslna í verðmyndun kindakjöts var í eldri samningi talinn um helmingur. Í þeim samningi sem fyrir liggur næstu sjö árin má ætla að hlutdeildin verði ívið meiri vegna þess samdráttar sem orðið hefur í neyslu kindakjöts.

Í samningi þessum eru, herra forseti, miklir fjármunir fólgnir --- of miklir að sumra mati --- og vil ég aðeins hyggja að þeim staðhæfingum.

Eftir alþjóðlegum mælikvörðum á stuðningi við landbúnað eftir svokölluðum PS-gildum, PSE- og CSE-gildum, sem mæla stuðning við framleiðendur er stuðningur við sauðfjárrækt á Íslandi minni en stuðningur við aðrar kjötframleiðslugreinar.

Árið 1999 mælir Efnahags- og framfarastofnun Evrópu stuðning við sauðfjárræktina sem 54 stuðningsígildi, við kjúklingaframleiðslu 86, við svínaframleiðslu 66 og við framleiðslu á nautgripakjöti 59. Stuðningur mældur á þennan kvarða er því hlutfallslega lægstur við sauðfjárframleiðslu og rúmlega 30% lægri en við framleiðslu á svínakjöti. Allt þetta ber að hafa í huga þegar fjallað er um aðgerðir í markaðsmálum landbúnaðarins hvort sem um beinan fjárhagsstuðning er að ræða eða óbeinan stuðning sem felst í takmörkunum á markaðsaðgangi erlendis frá.

Með tilliti til byggðanna er framlag sauðfjárræktarinnar mikið. Hún er grundvöllur búsetu dreifðari byggða landsins og stuðningur við greinina er því um leið stuðningur við byggð og það að viðhalda því menningarumhverfi sem byggð skapar á hverjum stað. Um þann þátt landbúnaðarins fer fram vaxandi umræða á alþjóðlegum vettvangi. Við væntanlegar breytingar á samningnum um Alþjóðaviðskiptastofnunina, sem tók gildi fyrir íslenskan landbúnað um mitt ár 1995, er lögð mikil áhersla á fjölþætt hlutverk landbúnaðarins í byggðamálum, í menningarmálum, í að vernda og nýta landið skynsamlega og viðhalda fjölbreytileika tegundanna auk þess veigamikla hlutverks að tryggja matvælaöryggi í landinu.

Þegar samið er til jafnlangs tíma og hér er gert, nánast til ársins 2008, er þýðingarmikið að sá samningur sé í takt við alþjóðlega þróun en ekki sé farið í aðra átt. Því reynum við og allir aðilar að huga að alþjóðaumhverfinu í þessu tilliti. Allt þetta ber að hafa hugfast við samningagerð og við lagasetningu sem þessa.

Það sem ekki er ljóst eða mótað í samningnum og þar af leiðandi ekki í lagasetningunni heldur eru gæðastýringarákvæðin. Það er ekki skilgreint í frv. hvernig þessum skilyrðum gæðastýrðrar framleiðslu verði háttað og leggur meiri hluti landbn. áherslu á að þar sem gert er ráð fyrir að ákveðnum hluta beingreiðslna verði varið til að greiða sérstakar álagsgreiðslur fyrir gæðastýrða framleiðslu þurfi að setja lög um þær reglur sem gilda skuli um úthlutun þeirra. Gert er ráð fyrir að landbrh. taki ákvörðun um álagsgreiðslurnar að fengnum tillögum framkvæmdanefndar búvörusamninga, en hún er að hluta til skipuð fulltrúum framkvæmdarvaldsins. Hér er um að ræða verulega fjármuni sem nefndin telur óeðlilegt að hægt sé að úthluta til framleiðenda með stjórnvaldsfyrirmælum. Eitt af markmiðum samningsins er að sauðfjárrækt verði í samræmi við umhverfisvernd, landkosti og æskileg landnýtingarsjónarmið. Hins vegar er enginn einhlítur mælikvarði fyrir hendi sem styðjast má við þegar landnýting er metin og ljóst að mikil vinna er fram undan við kortlagningu á gróðurjörðum. Með hliðsjón af þessu gerir meiri hluti nefndarinnar brtt. við frv. þess efnis að ráðherra verði gert að leggja fyrir Alþingi eigi síðar en 1. febrúar 2002 frv. til laga um álagsgreiðslur vegna gæðastýringarinnar, en gert er ráð fyrir að ákvæðin um gæðastýringuna verði virk árið 2003. Þannig er tryggt að sjálfri framkvæmd gæðastýringarinnar verði skipað með lögum.

Að sjálfsögðu ræddi nefndin einnig talsvert um heimild til framsals á greiðslumarki. Gert er ráð fyrir því í samningnum að framsal greiðslumarks milli lögbýla verði heimilt án takmarkana eigi síðar en 1. janúar 2004. Fram til þess tíma eða þar til ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi er flutningur greiðslumarks milli lögbýla aðeins heimill með sérstökum skilyrðum.

Markaður fyrir lífrænt ræktaðar og vottaðar vörur er í sókn. Meiri hluti nefndarinnar bendir á að eitt af markmiðum samningsins er að styrkja sauðfjárrækt sem atvinnugrein og bæta afkomu sauðfjárbænda. Með því að taka upp gæðastýrða framleiðslu er stigið skref í þá átt að hvetja til vistvænnar framleiðslu sem getur verið áfangi í framleiðslu lífrænna afurða.

Við meðferð málsins barst nefndinni beiðni um að breytt yrði ákvæði 20. gr. laganna um verðskerðingargjald af nautgripakjöti. Þar sem um er að ræða beiðni frá hagsmunasamtökum nautgripabænda um innheimtu sérstaks gjalds á þá sjálfa sem gengur jafnt yfir alla félagsmenn telur meiri hluti nefndarinnar eðlilegt að gera breytingartillögu þessa efnis við frv.

Brtt. er einnig gerð við 3. mgr. 2. gr. frv., en vegna mistaka við gerð þess voru ákvæði um útflutningsuppgjör að hluta annars efnis en til var ætlast. Gerir meiri hluti nefndarinnar brtt. til leiðréttingar á þessu.

Þá er gerð brtt. við 2. mgr. 40. gr. frv. Hún er tvíþætt, það eru leiðréttingar fyrst og fremst samkvæmt samningnum og e.t.v. óþarfi að fara langt út í það en þar féll einfaldlega niður orð í prentun. Hins vegar er gerð brtt. þess efnis að ásetningur líflamba hjá þeim bændum sem eru að koma upp bústofni eftir fjárleysi vegna niðurskurðar teljist til framleiðslu, þ.e. sá hluti ásetnings sem er umfram eðlilegt viðhald bústofnsins. Með því verða þeir bændur jafnsettir öðrum bændum.

Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frv. verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir og gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Undir nál. rita sá sem hér stendur og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Drífa Hjartardóttir, Jónína Bjartmarz, Guðjón Guðmundsson og Einar Oddur Kristjánsson.

Herra forseti. Góður friður og bærileg sátt ríkir um íslenskan landbúnað nú um stundir. Hann fetar sig til nýrra aðstæðna eftir föngum. Menn tileinka sér nýja tækni, aðlaga framleiðsluna að nýjum viðhorfum og leggja mikið upp úr því að framleiða holla og góða neysluvöru. Áður hef ég minnst á hlut stjórnvalda, skilning ríkisstjórnarinnar hæstv. á málefnum bænda og byggðamálum.

Sauðfjárrækt verður ekki skilin frá byggðasjónarmiðum og byggðastefnu, í mörgum fámennum byggðum er hún undirstaða búsetu. Því er það að á tilteknu stigi í samningagerðinni var vilyrði gefið fyrir sérstökum stuðningi við sauðfjárrækt í þeim byggðum sem mest eiga undir sauðfjárræktinni. Ríkisstjórnin hefur fjallað um það og ég vænti þess að hæstv. landbrh. geri grein fyrir þeim sérstaka stuðningi sem reiknað er með að Byggðastofnun setji reglur um hvað úthlutun varðar.

Ég vil svo, herra forseti, þakka meðnefndarmönnum mínum í hv. landbn. öllum með tölu fyrir gott samstarf og árangursríkt við þessa lagasmíð. Án þeirrar góðu samvinnu og vilja allra nefndarmanna til að komast að niðurstöðu og ljúka málinu hefði það ekki tekist á þessu vorþingi. Ég þakka sérstaklega fyrir þetta og einnig samstarfið við ráðuneytið, Guðmundi Sigþórssyni og fleiri sem að komu og þeim sem sendu okkur umsagnir eða höfðu samband með öðrum hætti.