Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 21:21:28 (7261)

2000-05-09 21:21:28# 125. lþ. 110.31 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, Frsm. 2. minni hluta ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 110. fundur, 125. lþ.

[21:21]

Frsm. 2. minni hluta landbn. (Þuríður Backman):

Herra forseti. Hér fjöllum við um frv. til laga um breyting á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum, eða eins og við köllum hann okkar á milli, sauðfjársamninginn.

Frv. og samningurinn komu til landbn. fyrir um mánuði síðan, eins og hér hefur komið fram. Landbn. kom ekkert að samningagerðinni og fylgdumst við bara með framvindu mála í fjölmiðlum. Það var ekki fyrr en samningurinn var undirritaður að hann kom inn á okkar borð. Gagnrýni bænda á samninginn er mismunandi og fer alveg eftir því hvaða áhrif hann hefur á búskap einstakra bænda því að það er mismunandi hvernig þau eru. Hún ræðst mikið af því á hvaða aldri bændur eru, hvort þeir eru ungir eða gamlir. Hún ræðst af stærð búa og það fer líka eftir viðhorfi bænda til gæðastýringarinnar hvort þeir séu tilbúnir til þess að taka þátt í þessu nýja verkefni eða ekki. Samningurinn sem slíkur snýr því mjög misjafnlega að bændum. Að mínu mati er samngurinn að mörgu leyti jákvæður og getur veitt bændum sóknarfæri ef hann er vel nýttur.

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti og brtt. 2. minni hluta landbn. sem ég skrifa undir. Frv. byggist á samningi ríkisstjórnar Íslands og Bændasamtaka Íslands um framleiðslu sauðfjárafurða frá 11. mars 2000 og þarf að breyta tilteknum ákvæðum laga nr. 99/1993 til þess að markmið samningsins nái fram að ganga. Skrifað hefur verið undir samninginn með fyrirvara um samþykki bænda og Alþingis. Bændur hafa þegar samþykkt samninginn í atkvæðagreiðslu og því er svigrúm Alþingis til breytinga lítið.

Samningnum er ætlað að bæta afkomu sauðfjárbænda, en hún er verulegt áhyggjuefni. Margt er jákvætt í þeim breytingum sem lagðar eru til í frumvarpinu og samningnum en þar eru einnig breytingar sem ekki er fyrirsjáanlegt hvaða áhrif hafa á afkomu búgreinarinnar og búsetu í landinu.

Hvað varðar gæðastýringuna tekur 2. minni hluti undir nefndarálit meiri hlutans að því viðbættu að varað er við miklu og kostnaðarsömu eftirliti gæðastýringarinnar, sérstaklega þeim þætti sem snýr að bændum.

Heimilt er ríkissjóði að kaupa upp 45.000 ærgildi. Ekki er vitað hvernig uppkaupin dreifast um landið og hvaða áhrif þau geta haft á einstakar byggðir, t.d. ef mikil uppkaup verða af takmörkuðu svæði. Því er mikilvægt að kanna áhrif uppkaupanna á afkomu og búsetuskilyrði bænda áður en frjálst framsal verður leyft. Þessi könnun verði gerð óháð grein 6.3 í samningnum um endurskoðun og úttekt að þremur árum liðnum á framkvæmd samningsins með tilliti til markmiða hans. Við endurskoðun skal sérstaklega hugað að hvernig til hefur tekist með undirbúning og framkvæmd gæðastýringar og hve stór hluti stuðnings skuli greiddur út á gæðastýrða framleiðslu.

Mikilvægt er að þeir fjármunir sem eru ekki fullnýttir til greiðslu eða uppbóta fari til verkefna innan búgreinarinnar. 2. minni hluti telur því að þeir fjármunir, sem kunna að sparast fyrir ríkið með uppkaupum á allt að 20.000 ærgildum sem ekki verður endurúthlutað, eigi að ganga á einhvern hátt aftur til greinarinnar. Þar má nefna sem dæmi stuðning við bændur sem vilja nota gæðastýringuna sem leið að lífrænum sauðfjárbúskap eða til að tryggja greiðslur vegna flutningskostnaðar á sláturfé. Þetta á sérstaklega við um bændur sem flytja fé um lengri leiðir en áður hefur þekkst vegna samkeppni milli sláturleyfishafa og fækkunar sláturhúsa.

Eins og fram kemur í nefndaráliti meiri hluta landbn. eykst stöðugt markaður fyrir lífrænt ræktað vörur og er dilkakjöt þar engin undantekning. Framleiðslukostnaður er nokkuð hærri en í hefðbundinni framleiðslu en á móti kemur hæsta afurðaverð. Lífrænn landbúnaður er vaxtarbroddur nýsköpunar sem hefur mjög jákvæða ímynd enda eru slíkir búskaparhættir í góðu samræmi við sjálfbæra þróun og virðingu fyrir jarðvegi, gróðri og búfé. Með meiri hvatningu og stuðningi gæti lífrænn landbúnaður jafnframt stuðlað að eflingu byggðar í sveitum landsins og í úrvinnsluiðnaði. Þessi valkostur getur hentað sumum bændum. Hvorki í samningnum sjálfum né frumvarpinu er að finna nokkurn hvata fyrir bændur til þess að hefja eða leggja stund á slíka ræktun. Þó er gæðastýrð sauðfjárframleiðsla skilgreind sem dilkakjöt sem framleitt hefur verið eftir kröfum um ákveðinn framleiðsluferil, hollustu og umhverfisvernd og því stutt í lífræna vottun. Nýta mætti sjö ára gildistíma samningsins sem nokkurs konar aðlögunartíma að aukinni lífrænni framleiðslu og eins því að bændur muni í framtíðinni mæta harðari samkeppni en hingað til í framleiðslunni og á innanlandsmarkaði.

(Forseti (GuðjG): Það er fullmikill kliður í salnum.)

Því þarf að hvetja og styðja bændur til þess að laga búskap sinn að lífrænum búskaparháttum.

Í ljósi bágrar afkomu sauðfjárbænda undanfarin ár og veikrar stöðu byggðar víða í sveitum, ekki síst þar sem byggt er á sauðfjárrækt, verður að draga í efa að þessi samningur dugi til að bæta ástandið að einhverju ráði. Tekjur sauðfjárbænda og fjölskyldna þeirra verða að hækka, annaðhvort með betri afkomu af búrekstrinum eða auknum stuðningi að einhverju leyti. Því hefði 2. minni hluti talið að ef eitthvað er þyrfti meiri fjármuni, a.m.k. fyrstu ár samningsins.

Annar minni hluti flytur breytingartillögur á sérstöku þingskjali um tvö mikilvæg atriði. Verði þær samþykktar gæti 2. minni hluti stutt meginefni frumvarpsins með vísan til þess fyrirvara sem fyrr greinir. Að öðrum kosti mun Vinstri hreyfingin -- grænt framboð sitja hjá við afgreiðslu málsins.

Herra forseti. Ég ætla þá að mæla fyrir brtt. þeim sem 2. minni hluti leggur hér til en þær eru, með leyfi forseta:

,,Við 6. gr.

a. 2. efnismgr. orðist svo:

Heimilt er að flytja greiðslumark milli lögbýla fram til 1. janúar 2004 með eftirtöldum skilyrðum: við sameiningu lögbýla; ef eigandi lögbýlis, sem hefur búið og stundað framleiðslu síðastliðin tvö ár, flytur á annað lögbýli; og ef eigandi að sérskráðu greiðslumarki flytur á annað lögbýli. Þegar ríkissjóður hefur keypt upp 45.000 ærgildi, sbr. 4. mgr., og áður en kemur til frjáls framsals greiðslumarks, skal gera úttekt á áhrifum uppkaupanna á búsetu og afkomu sauðfjárbænda. Frjálst framsal greiðslumarks verði heimilað með tilliti til niðurstöðu úttektarinnar. Framsal greiðslumarks skal taka gildi 1. janúar ár hvert og beingreiðslur greiðast framsalshafa frá sama tíma. Tilkynna skal Bændasamtökum Íslands framsal fyrir 15. janúar ár hvert vegna beingreiðslna fyrir viðkomandi ár.

b. Við bætist ný málsgrein, og orðast svo:

Verði þeir fjármunir ekki fullnýttir sem ætlaðir eru til greiðslu eða uppkaupa samkvæmt samningi þessum skal þeim varið til verkefna innan búgreinarinnar.``

[21:30]

Ég ætla að leggja áherslu á meginbreytinguna í þeirri tillögu sem hér er við 6. gr., en það er að fresta gildistöku frjáls framsals þar til búið verði að gera úttekt og könnun á því hvaða áhrif uppkaup 45 þús. ærgilda hefur. Við vitum ekki fyrir fram hvort þetta dreifist jafnt um landið eða kemur niður á afmörkuðum svæðum. Það er ekkert í samningnum sjálfum að mínu mati sem leyfir það ekki að við gætum varúðar og förum ekki út í frjálsa framsalið nema að skoða þetta rækilega.

Herra forseti. Ég vil geta þess að landbn. barst bréf frá sauðfjárbændum í Vopnafirði þar sem fram kom athugasemd við samninginn og þeir benda á að í samningnum sjálfum --- það kemur ekki inn í lagabreytingarnar --- sé ekki hægt að selja hluta af greiðslumarkinu. Þeir benda á að ungir bændur sem séu skuldum vafnir gætu hugsað sér að létta á skuldum, þó ekki væri nema lausaskuldum, með því að selja hluta af greiðslumarkinu, en það er ekki heimilt samkvæmt samningnum. Það er annaðhvort allt eða ekkert. Um þetta þarf að setja reglugerð og ég beini því til viðkomandi að hugsa til þeirra bænda og hvort ekki eigi að hafa þessa stöðu í huga þegar reglugerðin er sett.

Herra forseti. Í máli hæstv. landbrh. kom fram að hann muni beita sér fyrir því eða sjá til þess að 7.500 ærgilda greiðslumarki verði úthlutað sem byggðastyrkjum. Í nál. minni hlutans kom fram áðan að það mætti vera meira sem viðbót við samninginn, en ég tel þetta jákvætt skref og getur komið þeim svæðum til góða sem hugsanlega mundu fara illa út úr þessum uppkaupum, þ.e. ef þetta kemur niður á takmarkað svæði eða þetta verði sett inn á svæði sem eru mjög veik fyrir. Vissulega er þetta ekki stór úthlutun 7.500, en er þó til bóta.