Verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 22:28:25 (7274)

2000-05-09 22:28:25# 125. lþ. 111.7 fundur 420. mál: #A verðbréfaviðskipti og verðbréfasjóðir# (menntunarkröfur, tryggingar, afleiðusamningar o.fl.) frv. 99/2000, Frsm. minni hluta JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[22:28]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Jóhanna Sigurðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Þetta var vægast sagt harla sérkennileg ræða hjá hæstv. viðskrh. með vísan til þeirra stóryrða sem voru uppi hjá hæstv. ráðherra þegar hún settist í stól viðskrh. Þá voru stóryrðin mikil vegna þess að ráðherrann ætlaði svo sannarlega að taka á öllum þeim vandamálum sem voru uppi á verðbréfamarkaðnum. Hún talaði um að það þyrfti að taka á þeim, koma á ákvæðum sem tryggðu betur meðferð á trúnaðarupplýsingum og innherjaviðskiptum. Þegar ráðherra komst til valda höfðu sex fyrirtæki á verðbréfamarkaði brotið verklagsreglur og ráðherrann ætlaði strax að taka á þessu máli.

Hvað gerir hæstv. ráðherra nú? Öllum málum er vísað aftur til ráðherra og hún beðin að koma með betur búið frv. til þings næsta haust. Við erum auðvitað að gera tilraun núna til þess að styðja ráðherrann í litlu hænufeti sem ráðherrann tekur í átt til þess að gera leikreglur á verðbréfamarkaðnum ögn heilbrigðari en þær hafa verið. En engu að síður, og það sagði ég í löngu máli í dag, er langt frá því að við búum við heilbrigðan, réttlátan og sanngjarnan verðbréfamarkað eftir það frv. sem hér á að samþykkja. Ég vona að hæstv. ráðherra skilji það sem hér hefur farið fram í dag í þessari umræðu.