Meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 22:38:39 (7276)

2000-05-09 22:38:39# 125. lþ. 111.22 fundur 630. mál: #A meðferð, vinnsla og dreifing sjávarafurða# (innflutningur frá frystiskipum) frv. 91/2000, Frsm. EKG
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[22:38]

Frsm. sjútvn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. á þskj. 1256 frá sjútvn. um frv. til laga um breytingu á lögum um meðferð, vinnslu og dreifingu sjávarafurða, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu er lagðar til breytingar á lögunum sem gera ráðherra mögulegt að koma til móts við athugasemdir sem Eftirlitsstofnun EFTA hefur gert við þá framkvæmd hér á landi að heimila innflutning sjávarafurða frá frystiskipum ríkja utan Evrópska efnahagssvæðisins óháð því hvort þau eru á skrám yfir viðurkennda framleiðendur, vinnsluskip og frystiskip. Auk Íslands hafa Noregur, Danmörk og Bretland heimilað innflutning sjávarafurða frystiskipa frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins óháð viðurkenningu þeirra en rússnesk frystiskip flytja inn frosinn þorsk til framangreindra ríkja auk Íslands.

Þar sem fyrir liggur að Eftirlitsstofnun EFTA íhugar formlega málsmeðferð á hendur Íslandi og vegna þess að nokkur óvissa ríkir um kröfur sem gerðar eru um viðurkenningu frystiskipa frá ríkjum utan Evrópska efnahagssvæðisins er æskilegt að unnt verði að breyta framkvæmdinni hér á landi þegar skylda Íslands í þessum efnum liggur skýrt fyrir og ljóst er að framkvæmd á Evrópska efnahagssvæðinu er samræmd.

Ég vil vekja athygli á því að hér er um að ræða býsna mikilvægt mál vegna þess að í húfi er innflutningur á talsvert miklu magni af þorski til vinnslu á ýmsum svæðum á landinu. Því er um býsna stórt mál að ræða sem nauðsynlegt er að skapa um eðlilega lagaramma.

Nefndin leggur áherslu á að ráðherra nýti heimildir sem felast í frumvarpinu þannig að það skaði ekki samkeppnisstöðu íslenskra fyrirtækja gagnvart fyrirtækjum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins við kaup á frosnu hráefni.

Þetta er sett fram af hálfu sjútvn. af því tilefni að fyrir liggur að talsverð samkeppni er milli Íslendinga og ýmissa annarra ríkja, Dana, Kanadamanna og ríkja á Evrópska efnahagssvæðinu alveg sérstaklega, sem er mjög mikilvægt að verði ekki skert með þeim breytingum sem hér er verið að leggja til. Þess vegna er af hálfu hv. sjútvn. hvatt mjög til þess að heimildirnar verði nýttar þannig að þær skaði ekki samkeppnisstöðu íslenskrar fiskvinnslu sem þarf að heyja samkeppni við fiskvinnslu í öðrum ríkjum á hinu Evrópska efnahagssvæði.

Nefndin leggur einróma til að frv. verði samþykkt.

Hv. þm. Árni Steinar Jóhannsson sem sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi er samþykkur áliti þessu.

Undir nál. rita auk formanns og frsm. hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson, Hjálmar Árnason, Vilhjálmur Egilsson, Guðmundur Hallvarðsson, Árni Ragnar Árnason, Jóhann Ársælsson, Svanfríður Jónasdóttir og Guðjón A. Kristjánsson.