Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 22:41:55 (7277)

2000-05-09 22:41:55# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, EOK
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[22:41]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Sá sauðfjársamningur sem nú er verið að staðfesta með þessum lögum er ákaflega þýðingarmikill gerningur. Hann hefur fengið mjög góðar viðtökur í þinginu að mér hefur fundist, mjög jákvæð viðbrögð en hinu er rétt að halda til haga að samningurinn hefur fengið heldur kaldar kveðjur víða utan Alþingis í umræðum manna og dagblöðum sérstaklega.

Ég held að hér sé um mikinn misskilning að ræða hjá fólki sem telur að verið sé að fara sérlega illa með fjármuni og þetta sé hið versta mál eins og kemur víða fram. En hér er einmitt verið að treysta þann þátt landbúnaðarins sem stendur hvað veikastur en hefur þó hvað mesta og afdrifaríkasta þýðingu fyrir byggð í landinu. Verið er að vinna að því sem skiptir öllu máli, þ.e. að viðhalda byggðinni því að byggðin er verðmæti í sjálfu sér.

Því er það svo, herra forseti, að ég er þess mjög viss og veit að styrkur til sauðfjárræktarinnar nýtist þjóðfélaginu í heild og mjög mikilvægt er að það sé gert mjög myndarlega núna vegna þess að kostnaður sem þjóðfélagið mundi ella hafa ef ekki tækist að stöðva þann flótta úr sveitunum sem við horfum upp á yrði margfalt meiri en það sem við erum að tala um núna.

Ég vil líka taka fram að ég er alveg ófeiminn við að ræða um þetta sem byggðastyrki. Mér finnst það eðlilegt og sjálfsagt og kemur náttúrlega bæði bændum og neytendum til góða. Það er rétt að styðja byggð. Það gera allar vestrænar þjóðir sem vilja viðhalda menningu sinni og þjóð að byggja land sitt. Það er engin þjóð með þá stefnuskrá að byggja ekki land. Þess vegna held ég að hér hafi verið gerður mjög góður samningur sem ber að styðja. Það er samt svo þegar komið er að því að semja um styrki eða greiðslur til sauðfjárbænda, þá er ekkert óeðlilegt við það að mjög margvíslegir hagsmunir og margvísleg sjónarmið séu uppi.

Ég ætla að hér hafi tekist þó nokkuð góð sátt þegar á heildina er litið. Mikil vafamál voru uppi meðal bænda og bændur voru ekki á einu máli um hvort við ættum að halda áfram því formi sem við höfum verið að nota við styrkveitingarnar, þ.e. beingreiðslurnar sem eru ótengdar framleiðslunni. Niðurstaðan varð sú að halda því áfram í meginatriðum.

Ástæða er til að vekja athygli á þessu vegna þess að útflutningur á lambakjöti hefur valdið deilum, menn hafa skipst mjög í tvo hópa um hvort hann sé til góðs, hvort hann eigi sér möguleika eða ekki. Sumir segja að svo sé og aðrir segja að það sé víðs fjarri að við getum haft af honum árangur. Ég er sannfærður um, herra forseti, að útflutningur á lambakjöti getur orðið okkur til mikils gagns í framtíðinni ef við stöndum rétt að þeim hlutum. Veruleg ástæða er til að vekja athygli á því að á síðustu fimm árum eða svo hefur verið unnið að þessu á opnum markaði og þeir aðilar sem að því hafa staðið og starfað hafa unnið mjög mikið og gott starf. Það er því rétt og skylt að halda áfram að styðja það sem þeir eru að gera. Það verður ekki gert með neinum brellum. Það er bara seiga, jafna átakið sem gildir við markaðssetningu á slíkri vöru. Við munum ná árangri og það mun sýna sig en það tekur tíma og kostar peninga og menn verða að sýna þolinmæði og þolgæði.

[22:45]

Að vísu er rétt að ýmislegt í þessum samningi orkar dálítið tvímælis. Sjálfur er ég kannski ekki alls kostar ánægður með hann. Ég hefði kannski viljað hafa hann öðruvísi, en það þýðir ekkert um það að deila, þetta voru samningar og menn reyndu að mætast á miðri leið. Menn deildu mjög um hvort framsalið ætti að vera frjálst eða ekki, ég var og er þeirrar skoðunar að því fyrr sem frjálsu framsali á beingreiðslunni verði komið á því betra fyrir landbúnaðinn og því nær og því fyrr förum við að ná þeirri hagræðingu sem við þurfum svo mjög brýnt á að halda.

Ég hef hins vegar efasemdir um svokallað jöfnunargjald. Ég held að það sé stílbrot en ekkert er við því að gera, þetta var samningurinn og þannig standa málin.

Ég vil líka nota tækifærið til að fagna þeirri yfirlýsingu sem fram kom frá hæstv. landbrh. um að verja 7.500 ærgildum af því sem kaupa skal upp til að styrkja byggðir landsins. Ég stóð að því ásamt hv. þm. Stefáni Guðmundssyni fyrir nokkrum árum að fá samþykkta þáltill. um að styrkja sauðfjárræktina í jaðarbyggðum. Ég hef frá upphafi talið það gríðarlega þýðingarmikið að styrkja einmitt jaðarbyggðirnar og er sannfærður um að ef við þorum ekki að styrkja sauðfjárræktina í jaðarbyggðunum, þá þorum við ekki að styðja landbúnaðinn, þá mun bara dauða línan færast nær og nær. Því er það mikið fagnaðarefni tel ég fyrir byggðir landsins að ríkisstjórnin hefur nú ákveðið að stíga þetta skref.

Í heildina séð er ég sannfærður um að hér erum við á réttri leið, við erum að færa okkur í vistvænan búskap að meira og meira leyti. Kannski hefði verið betra að við hefðum stigið skrefið til fulls og notað tækifærið til þess að á samningstímanum skyldi allur búskapur sem hlyti styrki ríkisins vera vottaður. Menn treystu sér ekki til þess í þetta skipti en ég er sannfærður um að við erum á réttri braut. Við ætlum að tryggja rétta landnýtingu og við munum ná þeim árangri sem við höfum verið að stefna að öllum til hagsbóta.