Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 22:48:28 (7278)

2000-05-09 22:48:28# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, PHB
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[22:48]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Við ræðum frv. til laga um breyting á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, svokallaðan búvörusamning.

Við 1. umr. varaði ég alvarlega við ágöllum þessa samnings. Ég sagði að hann væri slæmur fyrir skattgreiðendur sem þurfa að borga 17.000 millj. kr. á næstu sjö árum. Þetta svarar nokkurn veginn til nettótekjuskatts ríkissjóðs á einu ári. Hann er slæmur fyrir neytendur sem búa við eitt hæsta landbúnaðarvöruverð í Evrópu. Hann er alveg sérstaklega slæmur fyrir sauðfjárbændur sem eru sennilega orðnir fátækastir allra stétta á landinu. Það er eins og menn sjái ekki staðreyndirnar, menn sjái ekki reynsluna, menn sjái ekki söguna, sjái ekki raunveruleikann. Þeir halda áfram á sömu braut, allt skal óbreytt.

Ég batt vonir við, reyndar ákaflega veikar vonir, að hv. landbn. mundi breyta einhverju til bóta fyrir bændur, t.d. leyfa framsalið eða eitthvað því um líkt. En þær vonir urðu að engu. Hér á að halda áfram á óbreyttri braut, það á að frysta núverandi stöðu kerfisins í sjö ár. Reyndar er smáglæta í öllu myrkrinu, í febrúar árið 2002 á að koma fram nýtt frv. þar sem á að skoða þá gæðastýringu sem er gæluverkefni einhverra skriffinna. Hvernig lítur draumsýnin um gæðastýringu út? Jú, það á að koma á gæðastýringu í landbúnaðinum. En jafnframt segja menn að það eigi ekki að hitta neinn, þetta sé nú svona og svona, bændur eigi allir að sleppa í gegnum þetta. Það á setja mikið verkefni í gang. Hverjum skyldi það veita vinnu? Ekki bændum, alls ekki. Það eru einhverjir skriffinnar, væntanlega í Reykjavík, sem byrja á því að hugleiða hvernig bændur eigi að rækta jarðir sínar, hvar best sé að beita og svo fara þessir sérfræðingar út á land og segja við bóndann sem hefur búið þarna í áratugi, tók við búinu af föður sínum, hvar hann eigi að beita og hvar hann eigi ekki að beita (Gripið fram í: Kannski af móður sinni.) Já, eða af móður sinni, og þeir segja bóndanum hvar hann eigi beita og hvar hann eigi ekki beita. Ég held það verði aldeilis upplit á sumum bændunum þegar þessir borgarbúar koma þarna út í sveitina.

Fyrir þetta ætla menn að lækka beingreiðslur til bænda um 12,5% stigvaxandi upp í 22,5%. Og það á að hækka greiðslurnar til bændanna sem standast gæðastýringarprófið. Hinir skulu sætta sig við æ verri kjör, meira hallæri. Ég hugsa að bændur muni taka þessu eins og hverju öðru hundsbiti eins og hingað til, þeir hafa sætt sig við sífellt versnandi stöðu, og þetta yrði í þeirra augum nýtt hallæri.

Svo er ákvæði um að hækka verðskerðingargjaldið úr 400 krónum í 800 krónur á kílóið, ég hélt ég læsi bara ekki rétt. (Gripið fram í: Á stykki.) Á stykkið? Nú, jæja, fyrirgefið, þá hef ég misskilið það. Þá er þetta strax miklu betra. En það er þessi ofurtrú á því að hið opinbera, stóri bróðir, eigi að sjá um markaðssetningu og allt fyrir hönd bænda því þeir séu gjörsamlega ófærir um það sjálfir. (Landbrh.: Greinin sjálf.) Greinin sjálf, mér er alveg sama, það eru einhverjir stjórar, einhverjir bændaforstjórar sem sjá um þetta fyrir bændur, þeir geta ekkert sjálfir.

Haldið er áfram að rjúfa tengsl bænda, framleiðendanna, við markaðinn og neytendur og haldið er áfram að binda bændur í helsi styrkja og forsjár og vantrúar á getu þeirra. Þetta er mesta mein bænda, menn treysta þeim ekki til að selja vörurnar sínar, menn treysta þeim ekki til að rækta túnin sín, menn treysta þeim ekki til að taka upp gæðastýringu sjálfir. Það skal gert ofan frá, og hefur ekkert að segja þegar það er ákveðið ofan frá. Frumkvæðið þarf að koma frá þeim sem ætlar að stunda gæðastýringu sjálfur.

Enn um stund, í sjö ár í viðbót, skal landbúnaðarstefnan íslenska fryst þrátt fyrir það að dæmin um stöðu sauðfjárbænda hér á landi æpi á menn. Ég vona, herra forseti, svo sannarlega að þessi samningur færi sauðfjárbændum einhverja bót, ekki veitir af.