Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:03:34 (7285)

2000-05-09 23:03:34# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra foreti. Ég er sannfærður um að hv. þm. misskilur þetta. Við höfum aldrei farið út á þessa braut fyrr. Það er mjög brýnt fyrir alla, fyrir þjóðina í heild, að við nýtum landið rétt. Við erum hér að fást við alls konar vandamál, við eigum hér við mikinn uppblástur að stríða og margs kyns annað sem hrjáir þetta land. Því er gríðarlega þýðingarmikið að beitinni sé stjórnað. Það er mikilvægt að við notum landið og pössum upp á að það sé ekki misnotað. Þess vegna erum við að gera þetta.

Allir verða að gera sér grein fyrir því að á Íslandi vita menn að lambakjöt er gæðavara. Verðið og neytandinn hefur ekki það afl sem bítur. Hins vegar vitum við að erlendis, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum, hefur á undanförnum árum verið vaxandi eftirspurn eftir vistvænni eða lífrænt ræktaðri vöru, ,,organic``. Við vitum að þessir markaðir eru til og að ákveðinn hluti af íslensku landbúnaðarframleiðslunni, þ.e. íslensku sauðfjárræktinni, getur fallið undir þetta, kannski 10%, kannski 15%. Það er gríðarlega þýðingarmikið að geta hjálpað til við þetta, stýrt þessari framleiðslu til útflutnings þar sem hærra verð fæst. Þetta erum við að reyna að gera, reyna að leiða framleiðsluna á þær brautir sem menn trúa að geti orðið til farsældar. Sú er ætlunin og hún er gerð af góðum hug. Bændur gera sér fullkomlega grein fyrir því að þeir eiga mikið og kannski allt sitt undir því, búgreinin í heild, að hún fái í framtíðinni slíka vottun. Ég held að bændur viti það almennt, þekki það og muni leggja sig fram við það. Þess vegna er ég bjartsýnn á að við munum ná árangri með þessum samningi.