Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:05:43 (7286)

2000-05-09 23:05:43# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:05]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði að það hafi aldrei verið farið út á svona braut áður. Hvað með lán til hlöðubygginga? Það var líka nýtt, að fara út í að byggja hlöður. Hvað með lánin fyrir traktorunum? Það var líka nýtt að lána mönnum fyrir þeim. (EOK: Þetta er útúrsnúningur.) Nei, ég er bara að segja að menn hafa alltaf reynt eitthvað nýtt og nýtt ofan frá. Það hefur verið lánað til refaræktar, lánað til laxeldis og silungseldis og allt var þetta nýtt á sínum tíma.

Nú á að stýra mönnum ofan frá og nú er það aftur nýtt. Ef svo er, sem ég hef trú á, að það sé vaxandi eftirspurn um allan heim og hér á landi líka eftir lífrænt ræktuðum landbúnaðarafurðum þá eiga bændur sjálfir að skynja það með hækkandi verði. Markaðurinn á að stýra því en ekki bændaforustan eins og núna sem skynjar það en bændur ekki sjálfir. Þetta er akkúrat meinið, þessi forsjárhyggja. Öll völd eru tekin af bændum, allt vit tekið frá þeim og þeim ekki treyst fyrir neinu.