Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:12:26 (7288)

2000-05-09 23:12:26# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, SJS
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:12]

Steingrímur J. Sigfússon:

Forseti. Nú er svo komið að ég er kominn með fráhvarfseinkenni af því að hafa ekki komist hér í þennan stól um nokkurt skeið þannig að ég ætla nú að máta mig aðeins í honum.

Ég vil segja hér nokkur orð af þessu tilefni. Hér er til afgreiðslu frv. til laga um breytingu á lögum um búvöruframleiðslu sem er í raun staðfestingarfrv. með nýgerðum búvörusamningi. Þessi samningur er að mörgu leyti eins og við mátti búast í ljósi núgildandi samnings og þess í hvaða farveg málefni hinnar samningsbundnu búvöruframleiðslu hafa fallið undanfarnin ár. Því miður hafa erfiðleikar landbúnaðarins og þá ekki síst sauðfjárræktarinnar á margan hátt orðið meiri og langvinnari en menn bjuggust við.

Ég held það verði að segjast eins og er að markmið búvörusamninga sem gerðir hafa verið allt frá 1985 hafa ekki gengið eftir eins og björtustu vonir manna stóðu til. Það gildir um þá alla og á því er enginn vafi. Þar af leiðandi er óskaplega auðvelt að koma í ræðustól og leika þann leik sem næstsíðasti hv. ræðumaður gerði hér áðan, að setja út á það, gagnrýna, vera vitur eftir á og allt þar fram eftir götunum. En þá er horft fram hjá mörgu, m.a. því að vandamál íslensks landbúnaðar eru í sjálfu sér ekkert mjög frábrugðin því sem gildir víða í kringum okkur. Þá er líka horft fram hjá því að erfiðleikar landbúnaðarins eru ekki einangrað fyrirbæri heldur hluti af víðtækari þjóðfélagsbreytingum þar sem sveitirnar allar og strjálbýlið hefur átt undir högg að sækja af fleiri ástæðum en málefnum búvöruframleiðslunnar.

Það sem hefur að mínu mati, herra forseti, gert þessar breytingar og þessa aðlögun búvöruframleiðslunnar og landbúnaðarins að breyttum aðstæðum sérstaklega erfiða og erfiðari en menn gátu búist við 1985, 1991 og þess vegna aftur 1995, er að ýmsar ytri aðstæður hafa jafnt og þétt haldið áfram að vera landbúnaðinum og sveitunum mótdrægar.

[23:15]

Í fyrsta lagi, og það á sérstaklega við um sauðfjárræktina, hefur sala afurðanna á innanlandsmarkaði, sem er auðvitað sá markaður sem hefur haldið atvinnugreininni uppi, haldið áfram að minnka og jafnvel hraðar og meir en menn höfðu búist við. Verð hefur lækkað, útflutningsmöguleikar hafa ekki skilað því sem menn bundu vonir við og þrátt fyrir að rofað hafi til á köflum og menn hafi verið farnir að gera sér vonir um að jafnvel mætti, ef vel gengi áfram, fara að stefna á framleiðslu til útflutnings sem sæmilega viðbót við þá hefðbundnu framleiðslu á innanlandmarkaði sem menn hefðu með höndum og með lágum jaðarkostnaði slíkrar viðbótarframleiðslu, gæti hún farið að skila bændum tekjum. Þær vonir hafa því miður einnig brugðist að mestu.

Síðan verður að horfa til þess að það hefur reynst ákaflega erfitt og lítið miðað í því að byggja upp aðra atvinnustarfsemi eða auka tekjumöguleika bænda meðfram hinum hefðbundna búskap þannig að það gæti styrkt stöðuna og bætt afkomu heimilanna í sveitum, annars vegar í gegnum þá viðbótartekjuöflun sem menn hefðu samhliða búskapnum, eða gegnum það að aukin verkaskipting gæti komið til þannig að sumir sneru sér að öðru en svigrúm hinna sem eftir yrðu í búvöruframleiðslunni rýmkaðist að sama skapi. Þetta, herra forseti, hefur því miður ekki gengið eftir nema að mjög litlu leyti. Vissulega hafa ákveðnir jákvæðir hlutir verið í þróun og mætti þar nefna hluti eins og aukna ferðaþjónustu í sveitum o.fl., en það hefur bæði skilað minna og gengið hægar en vonir stóðu til, a.m.k. þess sem hér talar.

Ég kemst ekki hjá því, herra forseti, að nefna að ég held að við gerð núverandi búvörusamnings hafi menn verið að glíma við a.m.k. eitt atriði sem ég var afar uggandi yfir þegar samningur var gerður 1995. Ég óttaðist þá og taldi mjög tvíbent að fara út í að rjúfa það samhengi stuðningsins, framleiðslunnar og innanlandsmarkaðar sem hafði verið komið á með tveimur undangengnum búvörusamningum og fært til þess miklar fórnir. Ég sé ekki annað, því miður, þó ég hafi enga sérstaka ánægju af því að segja hér eftir ,,já, sagði ég ekki``, en að það hafi gengið eftir og menn séu í og með að glíma við þann vanda sem þetta hefur síðan skapað vegna þess að þetta hefur ekki leyst að mínu mati nokkurn skapaðan hlut en skapað erfiðleika sem eru þeim mun meiri sem salan á innanlandsmarkaði hefur dregist meira saman. Þess vegna viðurkenni ég að samningamönnum voru að mörgu leyti skapaðar mjög erfiðar aðstæður því þennan afleik, sem mér er næst skapi að kalla svo, er ekki auðvelt að taka upp þegar þetta samhengi hefur einu sinni verið rofið.

Nú, ekki meira um það, herra forseti. Ég kemst ekki hjá því að segja og tek þar undir það sem fram kemur í nál. 2. minni hluta landbn., sem hv. þm. Þuríður Backman gerði áðan prýðilega grein fyrir, að ég óttast það að meira þurfi til. Ég hefði viljað sjá annað tveggja, hreinlega meiri stuðningi varið til aðlögunar að breyttum aðstæðum og til að stefna markvisst að því að bæta kjör bænda innan þessa samnings eða með markvissum hliðarráðstöfunum sem honum tengdust.

Ég óttast mjög að þetta dugi ekki til að snúa þannig við þróun mála í sveitum og í hinu eiginlega strjálbýli að við getum horft þar til eitthvað betri tíðar og almennt batnandi afkomu. Þá hlýtur okkur, herra forseti, öllum að vera ljóst að það getur ekki endað nema á einn veg, sveitirnar hljóta að halda áfram að tæmast og ekki síst þær sem eru háðastar sauðfjárræktinni og liggja þannig að þar er minnst um aðra atvinnumöguleika. Sauðfjárræktinni er í dag að langmestu leyti haldið uppi, herra forseti, þar sem afkoma manna er þannig að það sé í raun og veru hægt að ræða um hana á annað borð með hliðartekjuöflun. Það er jafnvel svo að á sumum af stærstu búum landsins stunda menn vinnu samhliða búskapnum ekkert síður en annars staðar. Því miður eru þau fá, búin, ef þau finnast þá yfir höfuð í sauðfjárrækt, þar sem fjölskylda hefur sómasamlegar tekjur af búskapnum einum saman.

Ég hlýt líka að nefna, herra forseti, að erfiðleikarnir af þessum toga eru þeim mun sársaukafyllri og koma verr við sem minna hefur í raun og veru markvisst verið gert til þess að bæta aðstæður manna sem svona eru settir að öðru leyti. Það er því miður þannig að það er ekki bara að menn verða að horfast í augu við erfiðleika hinnar hefðbundnu búvöruframleiðslu og sauðfjárræktarinnar sem hér er sérstaklega til umræðu, heldur verða menn að horfast í augu við að það hefur gengið sorglega hægt að taka á þeim vandamálum sem standa mönnum hvað mest fyrir þrifum og ég nefni þar tvennt. Ég nefni t.d. ófremdarástand í sambandi við dreifingu raforku, sem stendur allri annarri atvinnusköpun í velflestum sveitum landsins fyrir þrifum af því það er ósköp einfaldlega svo dýrt og illa samkeppnisfært að byggja upp einhverja aðra starfsemi, iðnaðarstarfsemi eða ferðaþjónustuna eða annað slíkt sem notar orku ef menn þurfa að kaupa hana á mun hærra verði í gegnum einfasa rafmagn. Og ég nefni samgöngumál. Það er ekki nokkur spurning að bágborið ástand vega, safnvega og tengivega, sem sveitabýlin búa almennt við af meginþjóðvegakerfinu, er mönnum gríðarlegur þröskuldur yfir að stíga gagnvart allri annarri mögulegri atvinnusköpun og sókn til þjónustu og annarra slíkra hluta.

Ég held því, herra forseti, að við komumst ekki langt ef við ræðum þetta ekki í því samhengi sem er óhjákvæmilegt að gera. Það eru til viðbótar vandamálum sem búvöruframleiðslunni sjálfri tengjast beint og afkomunni sem af henni leiðir sem slíkri aðrar almennar aðstæður sem mönnum eru búnar og þar hallar líka mikið á.

Nú er það, herra forseti, í raun og veru svo að að mínu mati er það að verða hlutfallslega miðað við þjóðarframleiðslu á Íslandi ekki það stórt mál að gera þarna svolítið betur að það er eiginlega dapurlegt að ekki skuli hafa náðst að skapast um það víðtækari samstaða. Þá vísa ég aftur til þess sem ég sagði, hvort heldur litið er til kjaranna sem slíkra beint, skilyrða búrvöruframleiðslunnar og þeirra tekna sem af henni er hægt að hafa eða annarra þátta sem hafa þarna áhrif á aðstæður manna og afkomu.

Málið snýst að lokum um það, herra forseti, hvort menn vilja í grófum dráttum verja það búsetumunstur og þá samfélagsgerð sem landbúnaðurinn og hinn hefðbundni búskapur er auðvitað hluti af. Þá verða menn að kosta þar nokkru til, það er alveg augljóst mál, og við getum ekki vænst þess hér á Íslandi frekar en yfirleitt annars staðar þar sem búskapurinn er nánast án undantekninga um heim meira og minna styrktur. Ég þekki sjálfur aðeins eitt land þar sem segja má að hann sé að mestu leyti látinn bera sig sjálfur, þ.e. höfuðgreinar hans, og það er Nýja-Sjáland, enda einstaklega vel fallið til landbúnaðar. Sennilega finnst nú ekki annað eins, önnur hliðstæða á jarðríki, og þar var sú grein lengi í sambærilegri stöðu í efnahagslífi landsins eins og íslenskur sjávarútvegur hefur verið. Þá snýst dæmið við, enda við nánast einir þjóða um það að láta þá grein spjara sig algerlega eða nokkurn veginn án stuðnings. Við höfum að sama skapi til þess einhverjar bestu aðstæður sem fyrir finnast á hnettinum að láta sjávarútveg ganga vel af því við eigum mjög auðug fiskimið og erum vel sett til þess að sækja á þau.

Svona er nú þetta, herra forseti. Ég leyfi mér, þó hér sé nokkuð knappt um tíma og mikið annríki, að hafa um þetta þessi fáeinu orð.

Það er svo, herra forseti, að lokum, að ég ítreka það sem fram kemur og tek undir það sem fram kemur í nál. 2. minni hluta. Í raun er það þannig að við í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði erum nálægt því að geta stutt þennan samning. Við hefðum þó viljað hafa hann öðruvísi og hafa þarna ákveðna hluti með öðrum hætti, bæði hvað varðar framkvæmdina og þá sérstaklega það mikla álitamál hvenær og hvernig menn opna á nýjan leik fyrir viðskipti með framleiðsluréttinn, m.a. vegna þess að þau viðskipti eru að mínu mati í allt öðru og miklu síðra samhengi vegna breytinganna sem gerðar voru í búvörusamningnum 1995. Væri enn til staðar það beina og órofna samband milli stuðningsins, framleiðslunnar og innanlandsmarkaðar, sem komið var á með ærnum sársauka, eins og ég hef áður sagt með fyrri samningum, væri tilfærsla þess réttar, þ.e. ávísunar á þann stuðning hins opinbera sem fólginn er í beingreiðslunum, auðvitað í öðru samhengi en nú er orðið þar sem í reynd er um að ræða fyrst og fremst viðskipti með réttinn til að þiggja stuðning frá ríkinu án sömu tengsla við aðstæðurnar í greininni og á innlendum markaði sem voru áður fyrir hendi. Það er veikleiki að mínu mati.

Hitt atriðið er svo það sem einnig er flutt brtt. um af okkar hálfu að það verði tryggt að atvinnugreinin haldi fullu raungildi þess fjárstuðnings sem fólgið er í núverandi framleiðslurétti eða beingreiðslurétti innan greinarinnar og ríkið afsali sér þar af leiðandi í reynd ábata af því að kaupa upp og út úr dæminu framleiðslurétt. Ef ég hef tekið rétt eftir var að vísu boðað í formi yfirlýsingar sem gefin var í andsvari að um 7.000 eða 7.500 ærgildum af þeim, ef ég hef skilið rétt, sem til stóð að yrðu upp keypt og hyrfu út úr myndinni yrði skilað aftur með tilteknum hætti til stuðnings sauðfjárrækt og/eða byggð á einhverjum tilteknum svæðum. Því fagna ég að sjálfsögðu, en þá standa eftir, ef rétt er reiknað hér, mögulega 13.000 ærgildi sem fara þá út eða ígildi þeirra í fjárstuðningi sem ríkið væri að spara sér. Það er orðinn bitamunur en ekki fjár, en gæti þó munað ef því væri vel og skemmtilega varið innan greinarinnar og það er tillaga okkar að verði gert. Með slíkum viðbótum hefðum við getað hugsað okkur að styðja meginefni frv., en náist ekki fram lagfæringar á þessu atriði munum við að öðru leyti sitja hjá við afgreiðslu málsins. Enda má það kallast eðlilegt í sjálfu sér, herra forseti, að stjórnarandstöðuflokkur sem var ekki kallaður til verkanna sérstaklega eða hafður með í ráðum, sé í sjálfu sér ekki að bera pólitíska ábyrgð á gjörð af þessu tagi sem til er stofnað af hálfu ríkisstjórnar, í umboði meiri hluta hennar, og síðan framkvæmdur væntanlega í framhaldinu af þeim hinum sömu aðilum. Umgjörð málsins er kannski í raun og veru ekki sú að það sé við öðru að búast en að þeir sem fara með framkvæmdarvaldið og bera ábyrgð á því, axli ábyrgð á málinu. Enda er það ein af lögbundnum skyldum landbrh. eins og kunnugt að leita eftir slíkum samningum og flokkast undir embættisskyldur.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð og læt máli mínu lokið.