Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:29:29 (7289)

2000-05-09 23:29:29# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:29]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er kannski erfitt að hrekja hv. þm. í andsvar. Í sjálfu sér ætla ég ekki að veita honum neitt andsvar. Ég vil taka undir margt sem fram kom í málefnalegri ræðu hans, hann kom inn á mörg atriði, og ég held að mönnum sé hollt að ræða málin eins og hann gerði í umræðunni, fara yfir stöðuna. Það er rétt sem hv. þm. sagði, hún var ekkert létt. Mikill vandi blasir við mörgu fólki sem stundar þessa búgrein. Hátt í 2.600 bændur eru með sauðfé og sjá náttúrlega allir að miðað við framleiðsluna eru of margir að framleiða of lítið og vandinn er stór. En við trúum því að sá samningur sem hér er muni skapa nýjar aðstæður.

[23:30]

Ég vil taka undir með hv. þm. að þó að ég álíti þennan langtímasamning mjög mikilvægan fyrir greinina þurfa menn auðvitað að fylgjast með stöðu samningsins og jafnvel grípa inn í þróunina ef hann virkar ekki sem skyldi. Það rakti hv. þm. vel í máli sínu um fyrri samninga.

En ég vil leggja áherslu á við íslenska bændur að það sem skiptir höfuðmáli er innanlandsmarkaðurinn eins og hv. þm. minntist á, þ.e. hvernig menn standa að sölu afurðanna. Þar skiptir máli hvernig staðið verður að verki af hálfu bænda og afurðastöðva þeirra. Það gleðilega við samninginn 1995 var fyrst og fremst það að innanlandsneysla hefur haldist í mjög svipuðu fari sl. fjögur til fimm ár. Ég vona að menn átti sig á því að þeir þurfa að standa nærri markaðnum, þeir þurfa að bera vöru sína fram í samkeppni við margar aðrar góðar matvörur. Þetta er því spurning um samkeppni og baráttu. Ég vona að samningurinn skili því að bændurnir og afurðastöðvarnar standi vel að því atriði.