Framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:34:11 (7291)

2000-05-09 23:34:11# 125. lþ. 111.16 fundur 553. mál: #A framleiðsla, verðlagning og sala á búvörum# (sauðfjárafurðir) frv. 88/2000, landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:34]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að auðvitað hefur landbrh. trú á þessum gerningi, en mér heyrist nú að sáralitlu munaði að hv. þm. gæti einnig stutt þennan samning. Einhver smáatriði, kannski spurning um meiri peninga eða önnur fáein atriði sem koma fram í þskj. hv. þm. Þuríðar Backman gera það að verkum að leiðir skilja að því leyti og trúi ég því að vinstri grænir muni sitja þá hjá við afgreiðslu málsins. En ég er vissulega þakklátur fyrir hvað litlu munaði um stuðninginn.

Ég get tekið undir það með hv. þm. að fákeppnisstaða er áhyggjuefni í huga þess sem hér stendur, fákeppnisstaða sem er að þróast í búgreinum og ekki síður sú fákeppnisstaða sem hv. þm. minntist á í verslun. Það er stórmál sem varðar fleiri en þann sem hér stendur og hæstv. viðskrh., það varðar kannski löggjöfina og Alþingi Íslendinga meira en nokkurn annan. Ég held að það sé atvinnugreinunum og ekki síst neytendum mikilvægt að þar sé örugg staða í landinu.

Ég vil að lokum segja um sauðfjárræktina að rétt er hjá hv. þm. að hún hefur þróast á ákveðinn hátt sem aukabúgrein, sem búgrein með atvinnu, búgrein sem er góð með mjólkurframleiðslu og ýmsu öðru. Því miður hefur þeim sem hafa þessa búgrein sem aðalatvinnu fækkað á síðustu árum og staða þeirra margra er erfið.

Ég ætla ekki að eyða fleiri orðum að þessu. Það er mjög mikilvægt að horfa til annars atvinnulífs og hv. þm. minntist á raforku og þriggja fasa rafmagn til að byggja upp annað atvinnulíf. Vil ég taka undir þau orð öll um leið og ég þakka honum fyrir málefnalega og ágæta ræðu.