Alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:43:14 (7296)

2000-05-09 23:43:14# 125. lþ. 111.14 fundur 557. mál: #A alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu# frv. 85/2000, Frsm. meiri hluta ÓÖH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:43]

Frsm. meiri hluta umhvn. (Ólafur Örn Haraldsson):

Virðulegi forseti. Það frv. sem hér liggur fyrir þingi eftir umfjöllun hv. umhvn. fjallar um samning og framkvæmd hans. Þar er fjallað um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu. Samning þennan hefur Ísland undirgengist með þeim skilyrðum að hann skuli koma hér til umfjöllunar og samþykktar. Eitt meginefni frv. felst í að umhvrh. og sjútvrh. setji reglugerð um margvísleg þau atriði er varða inntak frv., þ.e. um það hvernig fara skuli með alþjóðaverslun á tegundum villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu og gerð er grein fyrir því í frv. hver helstu atriði þessarar væntanlegu reglugerðar eru. En reglugerðin tekur til innflutnings, útflutnings og leyfisveitinga, enn fremur til undanþágna frá almennum reglum um verslun með dýr og hlutverk leyfisveitenda og skilgreiningu réttbærra opinberra aðila í málinu.

Við í hv. umhvn. teljum að hér sé um svo veigamikið atriði að ræða í frv. þegar horft er til reglugerðarinnar að nauðsynlegt sé að setja reglugerðina hið bráðasta. Þess vegna hefur nefndin lagt til að reglugerðin verði sett eigi síðar en sex mánuðum frá gildistöku laganna. Það eru meginbreytingarnar sem nefndin gerir og mælir með samþykkt þess með þeim breytingum sem hv. umhvn. hefur lagt til og kemur fram í þingskjölum.