Alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:45:47 (7297)

2000-05-09 23:45:47# 125. lþ. 111.14 fundur 557. mál: #A alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna í útrýmingarhættu# frv. 85/2000, Frsm. minni hluta KolH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:45]

Frsm. minni hluta umhvn. (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá minni hluta umhvn. um frv. til laga um framkvæmd samnings um alþjóðaverslun með tegundir villtra dýra og plantna sem eru í útrýmingarhættu.

Frv. það sem hér um ræðir fjallar um mjög merkan samning, CITES-samninginn sem Alþingi hefur í raun staðfest og hér er til umfjöllunar frv. til laga um framkvæmd hans.

Frumvarpið gerir ráð fyrir að yfirstjórn mála samkvæmt lögunum sé í höndum tveggja ráðherra, þ.e. umhvrh. og sjútvrh. og er það rökstutt í greinargerð með tilvísun í reglugerð um Stjórnarráð Íslands. Minni hluti umhvn. telur að hér sé gengið fulllangt í skilgreiningu á verksviði ráðuneyta, en 2. töluliður 12. gr. nefndrar reglugerðar segir að sjávarútvegsráðuneyti fari með mál er varða, með leyfi forseta: ,,Friðun og nýtingu fiskimiða.``

Minni hlutinn telur reglugerð þessa ekki krefjast þess að framkvæmd samningsins verði að hluta á hendi sjávarútvegsráðherra. Samkvæmt henni fer hann einungis með friðun og nýtingu fiskimiða. Hins vegar er í 13. gr. sömu reglugerðar fjallað um verksvið umhverfisráðuneytis og þar kemur fram að aðgerðir til að stjórna stofnstærð villtra dýra og dýravernd heyra undir verksvið þess ráðuneytis.

Í þessu sambandi telur minni hlutinn rétt að huga að því að þótt CITES-samningurinn sé í eðli sínu viðskiptasamningur er honum ætlað að stuðla að verndun dýra eða því að verndarákvæðum sé framfylgt. Það að banna verslun með dýr í útrýmingarhættu hefur reynst vel í báráttunni gegn veiðum á þeim og í sumum tilfellum betur en friðunarráðstafanir. Í skilningi reglugerðarákvæðanna sem að framan voru nefnd heyra málefni og markmið samningsins mun fremur undir umhverfisráðherra en sjávarútvegsráðherra. Minni hlutinn leggur það því til í sérstöku þingskjali. Er það í samræmi við umsagnir Náttúrufræðistofnunar Íslands og Náttúruverndar ríkisins sem nefndinni bárust. Mun það einnig vera í samræmi við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum og víðast í Evrópu.

Minni hlutinn telur einnig mikilvægt að einfalda og skýra framkvæmd samningsins og leggur því fram breytingartillögu, en leggur þó til að í málum sem snerta nytjastofna sjávar skuli umhverfisráðherra leita eftir samþykki sjávarútvegsráðherra áður en ákvarðanir eru teknar. Ábyrgð á framkvæmdinni verði þó aðeins á einni hendi, þ.e. umhverfisráðherra og þar með reglugerðarsmíðin öll vegna samningsins. Og um reglugerðarsmíðina skal tekið fram að minni hlutinn styður að setningu reglugerðar verði flýtt og tímatakmark sett, þ.e. innan sex mánaða frá gildistöku laga þessara.