Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:50:56 (7299)

2000-05-09 23:50:56# 125. lþ. 111.15 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, ÞBack
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:50]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Við erum að fjalla um frv. til laga um breytingu á lögum um átaksverkefni um framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða.

Á fjárlögum þessa árs hefur Áformi -- átaksverkefni verið úthlutað 25 millj. kr. og nú er verið að framlengja verkefnið um önnur tvö ár.

Ég skrifaði undir nefndarálitið með fyrirvara þar sem nokkur gagnrýni hefur komið fram á starfshætti Áforms -- átaksverkefnis. Mjög erfitt er að meta árangur af starfsemi verkefnisins þau fimm ár sem liðin eru síðan það hófst þar sem hlutverk átaksverkefnisins er mjög almenns eðlis og skýrar vinnureglur og markmið hafa ekki verið sett um starfsemi þess. Eins og kemur fram í nefndaráliti landbn. þarf að setja skýrar vinnureglur um starfsemi átaksverkefnisins og notkun þess fjármagns sem það fær til umráða. Þessar vinnureglur verður að setja strax svo þeir aðilar sem vinna að framleiðslu, markaðssetningu og rannsóknum vistvænna og lífrænna afurða sitji allir við sama borð og viti hvaða möguleika þeir hafa til að sækja fé og stuðning til hinna ýmsu verkefna úr sjóði verkefnisins.

Ég gagnrýni einnig þær áherslur sem lagðar hafa verið á vistvæna ræktun sauðfjár í stað þess að leggja áherslu á lífræna framleiðslu. Þar sem stór hluti fjármuna átaksverkefnisins hefur farið í markaðssetningu á vistvænu dilkakjöti þá vona ég að að fenginni reynslu verði áhersla lögð á lífrænt vottaðar vörur. Þar liggur vaxtarbroddurinn og möguleikar bænda til að fá hærra verð fyrir útflutningsafurðir sínar.

Ómarkviss vinna virðist einnig hafa verið í útgáfu og kynningarstarfi um vistvænar og lífrænar afurðir og gagnrýna má einnig háan rekstrarkostnað átaksverkefnisins, en hann er 36% af árlegu ráðstöfunarfé þess.

Herra forseti. Spyrja má hvers vegna ég studdi frv. með fyrirvara þó. Ástæðan er sú að vilji virðist vera fyrir því að styrkja áfram framleiðslu og markaðssetningu vistvænna og lífrænna afurða og þar sem þessi leið hefur verið valin, tel ég óráðlegt að leggja verkefnið niður nema fjármunum verði örugglega fyrir komið með öðrum hætti innan landbúnaðarins. Að mínu mati er átaksverkefnið sett á til nokkurra ára. Eftir það þarf að finna verkefninu farveg innan kerfisins ef menn eru sammála um ágæti þess.

Þetta átaksverkefni á að vera sjálfsagður hluti af starfi Bændasamtakanna, landbrn., Búnaðarháskólans og fleiri og þar þarf að finna því farveg. Ég hvet til þess að unnið verði að því að undirbúa farveg til að koma markmiðum átaksverkefnisins í framleiðsluferli og inn í markmið Bændasamtakanna, eins og ég sagði áðan, og landbrn. og að háskólinn hafi þetta sem hluta af sínu starfi. Eins að til sé sjóður sem bændur sem eru í lífrænni ræktun eða vilja fara í rannsóknir á vistvænum og lífrænni framleiðslu hafa aðgang að.

Ég fann að áhugi var á að halda þessu áfram og þar sem ég er mikill hvatamaður að öllu því sem styður lífræna og vistvæna framleiðslu, vildi ég ekki standa í vegi fyrir því að þetta verkefni yrði framlengt til 2002 en legg mikla áherslu á að þetta sem hefur verið átak og átaksverkefni verði í framtíðinni eðlilegt ferli, eðlilegur hluti af annarri starfsemi sem snýr að landbúnaðarstörfum og öllum þeim sem vilja leggja stund á rannsóknir á lífrænum vörum.