Markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða

Þriðjudaginn 09. maí 2000, kl. 23:56:16 (7300)

2000-05-09 23:56:16# 125. lþ. 111.15 fundur 399. mál: #A markaðssetning vistvænna og lífrænna afurða# (ríkisframlag) frv. 79/2000, KolH
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[23:56]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að koma og segja nokkur orð þegar þetta mál er til umfjöllunar við 2. umr. svo harkalega gagnrýndi ég það við 1. umr. þess. Ég er að sönnu hjartanlega sammála því sem kom fram hjá hv. ræðumanni Þuríði Backman sem talaði á undan mér, að það er lífsnauðsyn að reglur þær sem getið er í nefndaráliti landbn. verði settar strax og þær verða að vera ítarlegar og vel ígrundaðar því þetta er verkefni sem hefur skort reglugerðarákvæði. Hér er verkefni til umfjöllunar sem hefur haft 25 millj. kr. til ráðstöfunar frá landbrn. á hverju einasta ári síðan 1995 og stjórn þessa verkefnis hefur virkað sem óháð sjóðstjórn. Það er til skammar að 37% þessara fjármuna skulu hafa farið í stjórnunarkostnað í svona litlu verkefni sem tekur í rauninni ekki meiri fjármuni en þessa til sín.

Síðan við ræddum þetta mál við 1. umr. hefur verið lögð fram skýrsla, stjórnsýsluendurskoðun, frá Ríkisendurskoðun um Áform -- átaksverkefni. Það verður að koma hér fram, herra forseti, að niðurstaða ríkisendurskoðanda í þessari skýrslu er afar alvarleg og styður það sem ég hef áður sagt í þessu máli sem er að verkefni af þessu tagi sem var skilgreint eins og það var skilgreint þegar fyrir því var talað hér á sínum tíma, hefði allan tímann átt að heyra undir landbrn. og stofnanir þess en ekki undir fríhjólandi sjóðstjórn. Ég verð að láta það eftir mér, herra forseti, að lesa niðurstöðu skýrslu Ríkisendurskoðunar sem er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,Ljóst er að náðst hefur nokkur árangur í því að koma á viðhorfsbreytingu gagnvart gæðastýringu í landbúnaði auk þess sem árangur hefur náðst á ýmsum sviðum verkefnisins.``

Herra forseti. Hér skýt ég inn frá eigin brjósti að mér finnst það nokkur hroki að stjórn átaksverkefnisins skuli þakka sér þá viðhorfsbreytingu sem hefur orðið undanfarin fimm, sex ár til lífrænna eða vistvænna landbúnaðarafurða. Ég held áfram tilvitnuninni. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir það er það álit Ríkisendurskoðunar að forsvarsmenn verkefnisins hafi ekki staðið á nægilega markvissan hátt að verkefnavali. Verkefnavalið hafi spannað of vítt svið miðað við þá fjármuni sem stjórnin hafði til ráðstöfunar. Markmið og áherslur þarf að mati Ríkisendurskoðunar að móta á skýrari hátt og nauðsynlegt er að setja skriflegar verklagsreglur. Þar sem um takmarkað ráðstöfunarfé var að ræða hefði mátt ná fram meiri árangri með því að beina áherslum verkefnisins að tilteknum afmörkuðum sviðum hverju sinni í stað þess að dreifa fjármunum verkefnisins til svo margra smárra verkefna eins og gert var.``

Allt sem fram kemur í þessari skýrslu Ríkisendurskoðunar styður það sem ég sagði við 1. umr. málsins. Það er ámælisvert að svona verkefni skuli hafa farið af stað og að ekki hafi verið sett um það reglugerð og að ekki hafa verið haft með því meira eftirlit en raun ber vitni. Þetta er áfellisdómur yfir verkefninu í heild og, herra forseti, ég sé ekki ástæðuna sem landbn. sér með að styrkja verkefnið sem slíkt áfram. Málaflokkinn hins vegar ber að styrkja ríkulega en þá undir forræði hæstv. landbrh. og stofnana landbrn. Það hefði að mínu mati verið miklu skynsamlegri leið því að við verðum að athuga það að við erum þegar komin með 30 býli í landinu sem hafa vottun til lífrænnar framleiðslu á kartöflum, grænmeti, korni, mjólk, sauðfjárafurðum, trjáplöntum, skógarafurðum, garðblómum, ávöxtum og kryddjurtum. Við erum komin með vottað nytjaland sem nemur nú tæpum 3.400 hekturum og fer hratt vaxandi ár frá ári. Þá hafa tíu fyrirtæki vottun til móttöku og vinnslu á lífrænu hráefni. Þar af eru þrjú sláturhús, tvær mjólkurstöðvar, þörungaverksmiðja og grænmetis- og ávaxtadreifingarstöð og þá hefur stærsta dúnbýli landsins hlotið vottun til markaðssetningar á æðardúni sem vottaðri náttúruafurð.

Herra forseti. Þessar staðreyndir segja okkur að vakningin er mikil og það er þörf fyrir öfluga stefnu í málefnum lífrænnar ræktunar, lífrænnar framleiðslu. Þessari stefnu auglýsi ég enn eftir og ég skora á hæstv. landrh., af því að hann situr hér og hlýðir á mál mitt, að vakna nú til vitundar um að hér þurfi að setja almenna harða stefnu um að efla lífræna ræktun í landinu og skilja vel á milli lífrænu ræktunarinnar og hinnar vistvænu.