2000-05-10 02:30:09# 125. lþ. 111.21 fundur 485. mál: #A brunavarnir# (heildarlög) frv. 75/2000, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 111. fundur, 125. lþ.

[26:30]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Það er rétt sem fram kemur í máli hv. formanns umhvn. að staða slökkviliða er misjöfn. Sums staðar á landsbyggðinni er hún veik. Að mínum dómi er það hlutverk stjórnvalda að efla slökkviliðin þar sem þau eru veik en ekki veikja þau enn frekar með því að fela öðrum aðilum verkefni sem eiga að heyra þeim til.

Ég tek eftir því að hv. formaður umhvn. leggur áherslu á að hér sé ekki um stefnumótun heldur um heimildarákvæði að ræða. Ég ætla að leyfa mér að skilja það svo, nema því verði mótmælt, að það muni heyra til algjörra undantekninga að beita heimildarákvæðinu. Ég legg þann skilning í þessa lagagrein nema annað komi fram.