MBA-nám við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:33:20 (7336)

2000-05-10 10:33:20# 125. lþ. 112.91 fundur 512#B MBA-nám við Háskóla Íslands# (aths. um störf þingsins), samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:33]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. vitnaði til hefur háskólaráð fjallað um þetta mál og það var vitnað til bókunar en þar segir einnig í bókun háskólaráðs:

,,Reglugerðardrög þessi verða send deildum til umsagnar á næstu dögum og síðan lögð fyrir háskólafund sem haldinn verður 18. og 19. maí nk. Í framhaldi af því mun háskólaráð setja nýja reglugerð fyrir Háskóla Íslands. Háskólaráð fagnar þessu frumkvæði viðskipta- og hagfræðideildar og telur eðlilegt að hefja kynningu á MBA-náminu og skrá nemendur þegar traustum grundvelli hefur verið skotið undir námið með setningu nýrrar reglugerðar.``

Þetta er tilvitnun í samþykkt háskólaráðs frá 23. mars.

Svo sem bókun háskólaráðs ber með sér er til umfjöllunar innan Háskóla Íslands hvort og þá hvernig MBA-nám verði veitt á vegum viðskipta- og hagfræðideildar Háskóla Íslands. Háskóli Íslands hefur ekki komist sjálfur að niðurstöðu í málinu. Háskólinn á eftir að ganga frá þessum reglum og útfæra nákvæmlega hvernig ber að standa að framkvæmd þessara hugmynda og hefur þar af leiðandi ekki kynnt fyrir ráðuneytinu hvernig staðið verður að málinu. Þess vegna er ekki hægt að gefa neinar sérstakar yfirlýsingar um þetta núna heldur er vísað til þess sem verið er að vinna að á vegum háskólans. Auðvitað er ekki hægt að segja fyrir fram um það hver afstaða fulltrúa ráðuneytisins verður þegar ekki liggur fyrir hvað háskólinn muni leggja til.