MBA-nám við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:36:56 (7338)

2000-05-10 10:36:56# 125. lþ. 112.91 fundur 512#B MBA-nám við Háskóla Íslands# (aths. um störf þingsins), ÖS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:36]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Hér er um grundvallarmál að ræða. Þess vegna gengur það ekki að hæstv. starfandi menntmrh. komi hingað og segi okkur deginum fyrir þinglok að ekki sé tímabært að ræða málið. Hvenær á að ræða þessi mál ef ekki á sjálfu þinginu? Eða er það virkilega þannig að hæstv. ríkisstjórn ætli ekki að standa við þau orð sem sögð voru í ræðum fyrr í vetur? Er það virkilega þannig að hæstv. ríkisstjórn ætli ekki að standa við þau orð sem sögð voru í ræðum fyrr í vetur? Ég tek líka eftir því, herra forseti, að það er gjá á milli talsmanns Framsfl. í þessu máli, hv. þm. Ólafs Arnar Haraldssonar og Sjálfstfl. Hv. þm. Ólafur Örn Haraldsson lýsir því skorinort yfir að ekki eigi að taka upp skólagjöld.

Herra forseti. Á sínum tíma voru uppi hugmyndir um að taka inn í lög heimildir sem hefðu getað leitt til verulegra skólagjalda. Frá því var horfið á sínum tíma, bæði af háskólanum og líka af ríkisstjórn, ekki síst vegna mikillar andstöðu þingmanna, m.a. innan Framsfl. sem hér er verið að staðfesta í dag.

Nú blasir það hins vegar við að búið er að leggja drög að reglugerð í háskólanum sem gerir í reynd kleift að setja upp námsbrautir víðs vegar við háskólann sem hægt er að skilgreina sem endurmenntun og taka fyrir þær ákaflega há skólagjöld. Herra forseti. Ég hlýt fyrir hönd Samfylkingarinnar að mótmæla þessu. Hins vegar er með þessu verið að staðfesta það sem Samfylkingin og stjórnarandstaðan hefur sagt að Sjálfstfl. vill smygla inn skólagjöldum. Ég les þetta sem er nú að gerast auðvitað með hliðsjón af því að menntmrh. hefur 20% fulltrúa háskólaráðs og ég spyr: Hvað ætlar hann að gera við þessa fulltrúa sína?

Ég les þetta líka með hliðsjón af stöðugri viðleitni Sjálfstfl. til að koma á háum skólagjöldum allan síðasta áratug, ekki aðeins við háskólann, heldur líka við framhaldsskóla. Herra forseti. Þarna er Sjálfstfl. að gera tilraun til að smygla inn skólagjöldum bakdyramegin og innleiða einkavæðingu í skólakerfið.