MBA-nám við Háskóla Íslands

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:45:32 (7343)

2000-05-10 10:45:32# 125. lþ. 112.91 fundur 512#B MBA-nám við Háskóla Íslands# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:45]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og áður hefur komið fram var þetta mál til umræðu utan dagskrár í vetur og hóf ég þá umræðu. Þá taldi ég að viðbrögð menntmrh. væru á þá leið að ráðuneytið þyrfti að fylgjast með því hvernig háskólinn ætlaði að vinna að málinu í framhaldinu. Ég leyfi mér að túlka orð hæstv. menntmrh. þannig að miklar efasemdir hafi verið í huga ráðherra að sú leið væri lögleg og yfir höfuð fær fyrir háskólann sem áformað hafði verið að fara til að taka þessi skólagjöld. Þar af leiðandi kemur mér mjög á óvart ef Háskóli Íslands heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist í framhaldi þeirra skoðanaskipta sem urðu á Alþingi og eins og Háskóla Íslands komi ekki við hvað fyrir mönnum hefur vakað með setningu löggjafar og þeirra starfsreglna sem háskólinn á að uppfylla.

Þetta held ég sé hið versta mál, herra forseti, og það væri mikið óheillaskref ef háskólinn færi inn á þessa braut. Þess vegna ríður á miklu að það takist að stöðva það.

Herra forseti. Þar sem þetta snýst líka að hluta til um lögskýringar, hvað vakti nákvæmlega fyrir mönnum þegar sett voru ákvæði í lög um þessi mál, og ég held að það sé alveg skýrt að í hugum manna var að það ætti ekki að taka skólagjöld við nám af þessu tagi, legg ég því til að menntmn. kalli stjórnendur háskólans til sín. Ef menntmrn. er sofandi í málinu verður að leysa það með einhverjum öðrum hætti og þá sýnist mér einfaldast að löggjafinn geri það sjálfur. Þó þingið kunni að ljúka störfum á næstu klukkutímum eða sólarhringum starfar menntmn. áfram með umboði í sumar. Ég fer fram á að menntmn. hafi samband við háskólann og reyni að leiðbeina þeim um það hvernig þessir hlutir eigi að vera samkvæmt lögum.