Þjóðlendur

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 10:54:44 (7351)

2000-05-10 10:54:44# 125. lþ. 112.1 fundur 321. mál: #A þjóðlendur# (kostnaður af hagsmunagæslu, málsmeðferð) frv. 65/2000, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[10:54]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er mjög miður að hæstv. ríkisstjórn skuli hafa klúðrað jafnillilega framkvæmd þessara mála og raun ber vitni og skapað um það ósætti sem menn eru ekki búnir að bíta úr nálinni með. Það hefði verið mjög hyggilegt að samþykkja þá brtt. um endurskoðun framkvæmdarinnar og endurmönnun sem hv. þm. Jón Bjarnason flutti áðan. Sú tillaga var að sjálfsögðu fullkomlega þingleg og eðlileg miðað við eðli málsins og Alþingi getur að sjálfsögðu mælt fyrir um að stjórnskipaðar nefndir séu endurskipaðar ef því sýnist svo.

Herra forseti. Ég held að þetta sé þeim mun bagalegra sem hér er á ferðinni mjög mikilvægt hagsmunamál. Hér er gætt ríkra almannahagsmuna og mikilvægt er að ríkinu takist það vel, en ríkið þarf líka að fara fram með sanngirni. Það kemur úr hörðustu átt að hæstv. ríkisstjórn hreyti skætingi í þá sem hér hafa haldið uppi gagnrýni því harðasti andstæðingur framkvæmdarinnar er hæstv. landbrh., sem af einhverjum undarlegum ástæðum er fjarstaddur atkvæðagreiðsluna, sömuleiðis 1. þm. Suðurl., sem hefur haft uppi stór orð um það hversu illa hafi tekist til í framkvæmd ríkisstjórnarinnar í málinu. Þetta er undarleg fjarvera, herra forseti, þessara tveggja höfðingja.