Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 11:10:49 (7356)

2000-05-10 11:10:49# 125. lþ. 112.5 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[11:10]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Hér er verið að greiða atkvæði um mikilvægt lagafrv. Hann er vandrataður vegurinn á milli þess annars vegar að tryggja persónuvernd og hins vegar að sjá til þess að þjóðfélagið sé opið og nauðsynlegum og mikilvægum upplýsingum ekki haldið leyndum. Að mínum dómi hefur vel tekist til með frv. með einni stórri undantekningu þó. Hún er sú að undanskilinn er lögum um persónuvernd sá málaflokkur sem mestum deilum hefur valdið á síðari tímum í íslensku samfélagi hvað réttindi einstaklinga og persónuvernd snertir, gagnagrunnur á heilbrigðissviði. Hann er undanskilinn þessari lagasetningu, þar er ekki spurt um réttindi einstaklingsins, heldur eru teknar upplýsingar um heilsufar hans að honum forspurðum og fengnar fyrirtæki í hendur sem gerir þær að verslunarvöru. Þetta er alvarleg brotalöm á annars góðu frv.