Persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 11:13:20 (7358)

2000-05-10 11:13:20# 125. lþ. 112.5 fundur 280. mál: #A persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga# (heildarlög) frv. 77/2000, ÖJ (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 112. fundur, 125. lþ.

[11:13]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég sit hjá við þetta ákvæði. Mér finnst mikilvægt að sú stofnun sem fer með persónuvernd sé eins óháð framkvæmdarvaldinu og kostur er. Samkvæmt þeirri tillögu sem hér liggur fyrir á ráðherra að skipa meiri hluta stjórnar Persónuverndar án tilnefningar, þar með talinn formann stjórnarinnar og varaformann. Við höfum því miður reynslu af misnotkun á ráðherravaldi gagnvart vísindasiðanefnd sem haldið hafði uppi málefnalegri gagnrýni gagnvart gagnagrunni á heilbrigðissviði og var fyrir vikið rekin. Hér hefðu þurft að koma fleiri tilnefningaraðilar og nefni ég þar Siðfræðistofnun Háskóla Íslands og lagadeild Háskóla Íslands, Neytendasamtökin eða aðra slíka. Reynslan kennir okkur, því miður, að vafasamt er að treysta ráðherravaldi í þessum efnum.