Atvinnuréttindi skipstjórnarmanna

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:01:16 (7371)

2000-05-10 12:01:16# 125. lþ. 113.3 fundur 619. mál: #A atvinnuréttindi skipstjórnarmanna# frv., KPál (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 113. fundur, 125. lþ.

[12:01]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Hér er mikill misskilningur á ferðinni að mínu áliti því verið er að breyta starfsréttindum skipstjórnarmanna gegn sjómannastéttinni. Með þessu er verið að draga úr menntunarkröfum sjómanna um leið og dregið er stórlega úr öryggiskröfum um borð í fiskiskipum. Aðsókn að Sjómannaskóla Íslands og Stýrimannaskólanum hefur verið mjög á undanhaldi á undanförnum árum og svo er komið að 2. stig Stýrimannaskólans er ekki starfrækt í dag. Þessi breyting mun því draga stórlega úr aðsókn í Stýrimannaskólann og ljóst að 39 skip sem hingað til hafa þurft að vera mönnuð af fullmenntuðum skipstjórnarmönnum þurfa ekki lengur á því að halda, heldur geta nemendur úr grunnskóla 10. bekkjar sem náð hafa svokölluðu pungaprófi stjórnað skipum með 5--6 manna áhöfn á togveiðum og alls konar veiðiskap sem er mjög vandasamur og mér finnst mjög alvarlegt að samgn. skuli ...

(Forseti (GuðjG): Klukkan stóð á sér, hv. þm. hefur þegar talað í eina og hálfa mínútu.)

Ég er enn á grænu ljósi. Herra forseti. Ég vil bara ítreka það að ég mótmæli slíkum vinnubrögðum sem viðhöfð hafa verið í þessu máli og greiði því atkvæði gegn þessu.