Fyrirspurnir til forsætisráðherra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:14:18 (7376)

2000-05-10 12:14:18# 125. lþ. 114.91 fundur 523#B fyrirspurnir til forsætisráðherra# (aths. um störf þingsins), RG
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:14]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Ég geri alvarlega athugasemd við störf þingsins á þessum morgni. Þann 13. og 15. mars sl. bar ég fram fyrirspurnir til hæstv. forsrh. Slíkum fyrirspurnum er ætlað að svara á dagskrá þingsins næsta miðvikudag á eftir. Það hefur ekki gerst. Liðnir eru nær tveir mánuðir án þess að hæstv. forsrh. hafi séð ástæðu til að svara þeim fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint.

Á dagskrá þessa fundar eru síðan fyrirspurnir til forsrh. og við höfum gert ráð fyrir því sem höfum undirbúið þær að eiga orðastað við hæstv. forsrh. En að sjálfsögðu ætlar hann sér ekki að eiga orðræður við okkur. Þannig fáum við nú skilaboð um að hann taki ekki þessar fyrirspurnir og þær eru teknar út af dagskrá.

Herra forseti. Ég hlýt, um leið og ég bið um að það séu ekki margir fundir í salnum, að greina frá því hversu einfaldar þær fyrirspurnir eru sem ég beindi til forsrh. Annars vegar er um það að ræða hvort hann hyggist gefa út ályktanir Alþingis sem eru um framkvæmd á þeim ályktunum sem alþingismenn fá samþykktar í þinginu. Þessari spurningu er hægt að svara með jái eða neii.

Hin fyrirspurnin er um það hvort hæstv. ráðherra líti svo á að nefnd, sem hann skipaði sjálfur samkvæmt samþykkt slíkrar ályktunar, sé enn að störfum og henni sé ætlað að skila tillögum til hans vegna þess að sú nefnd heldur ekki fundi.

Herra forseti. Hæstv. forsrh. velur að hunsa þessar fyrirspurnir þó að hann geti komið óundirbúið og látið vilja sinn í ljós með því að svara þeim. Hann velur að sjálfsögðu hvort hann umgengst þingið með reisn eður ei. En ég hlýt að spyrja hvernig þingið gæti hagsmuna þingmanna gagnvart framkvæmdarvaldinu hvað upplýsingagjöf varðar. Ég mótmæli harðlega þessari framkvæmd dagskrárinnar í dag. Það eru nærri tveir mánuðir liðnir frá því að fyrirspurnirnar voru lagðar fram. Þær eru einfaldar. Það er hægt að svara þeim með jái eða neii eins og hér hefur komið fram og nákvæmlega þessi staða endurspeglar gerræðislega framkomu af hálfu forsrh. gagnvart þinginu, sem ég harma og sem ég mótmæli harðlega, herra forseti, og ég hlýt að spyrja: Hvernig ætlar þingið að bregðast við þessu? Þetta er einn af síðustu dögum þingsins, síðasti fyrirspurnatíminn og skilaboð forsrh. til okkar, sem höfum beint til hans fyrirspurnum, eru að hann ansi okkur ekki. Þetta er algerlega óviðunandi staða fyrir þingmenn, herra forseti, og ég krefst svara um hvernig bregðast á við.