Fyrirspurnir til forsætisráðherra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:21:38 (7381)

2000-05-10 12:21:38# 125. lþ. 114.91 fundur 523#B fyrirspurnir til forsætisráðherra# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:21]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ástæða þess að ég kveð mér hljóðs um störf þingsins er sú að 24. febrúar lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. forsrh. á þskj. 652 um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land og var óskað eftir skriflegu svari. Það skriflega svar er ekki komið enn og ég vek athygli á því að þetta er fyrirspurn um flutning þessara verkefna árið 1999 meðan þessi málaflokkur var enn þá á forræði hæstv. forsrh. sem þá starfaði jafnframt sem byggðamálaráðherra.

Þetta svar er ekki enn komið nú tæpum þremur mánuðum eftir að fyrirspurnin var lögð fram og það sætir mikilli furðu. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forseta út í það hvort forsetaembættið geti ekki athugað hvort það sé þannig að það séu svo rosalega mörg störf sem hafi verið flutt út á land að þetta væri svo rosalega mikil og yfirgripsmikil skýrsla að það tæki allan þennan tíma og þá vonandi allt sumarið að koma þessu á prent og koma þessu frá sér, eða e.t.v. hvort störfin séu svo fá að menn skammist sín fyrir að leggja þá skýrslu fram ef væri nánast hægt að leggja það á bréfmiða sem gæti verið í kubbum á borðum ráðherra.

Við þessu vildi ég fá svar sem allra fyrst vegna þess að mér finnst það mjög alvarlegt mál ef ekki er hægt að svara slíkum fyrirspurnum sem þarna eru lagðar fram. Ég geri ekkert með það þó að það komi fram í skýringum á eftir að þessi málefni séu ekki lengur á forræði forsrh. Það er sannarlega rétt að það breyttist, hæstv. forsrh. gafst upp á þessum málaflokki um síðustu áramót og afhenti hann iðnrh. en ég geri ekkert með það vegna þess að þetta er fyrirspurn um þessi störf og það sem gerðist árið 1999. Jafnframt var loksins á dagskrá fundarins í dag fyrirspurn sem ég lagði fram til hæstv. forsrh. 23. mars um búsetuþróun, um stefnu í byggðamálaáætluninni, sem er dálítið viðamikið plagg og það besta í því er hve mikið er af upplýsingum en tillögurnar eru einskis virði og ekkert er farið eftir þeim og lítið sem ekkert gert. Í þessum málaflokki sem svo mörgum öðrum er hæstv. ríkisstjórn með allt niður um sig varðandi búsetuþróun og hefur enga tilburði til að bregðast við. Þarna ætlaði ég að spyrja m.a. um hvort það hefði verið kannað t.d. hvað nýsettar breytingar á þungaskatti hafi í för með sér en þar telja menn að flutningskostnaður til staða sem lengst er að fara muni hækka um 30% og fara beint út í verðlagið. En ég skil líka nokkuð vel að hæstv. forsrh. skuli forðast eins og heitan eldinn að ræða byggðamál. Slóðin er ekki það falleg undanfarin ár.