Fyrirspurnir til forsætisráðherra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:30:49 (7386)

2000-05-10 12:30:49# 125. lþ. 114.91 fundur 523#B fyrirspurnir til forsætisráðherra# (aths. um störf þingsins), KLM
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:30]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Ég er afar ósáttur við það svar sem ég fékk um að hæstv. iðnrh., sem tók við málefnum byggðanna um síðustu áramót, ætti að svara fyrir það sem ég var að spyrja um vegna liðins árs, ársins 1999. Ég hef miklu meiri trú á að hæstv. iðnrh. bregðist vel við þeirri búseturöskun og búsetuþróun sem orðið hefur heldur en hæstv. forsrh. hefur gert undanfarin ár sem er ekki með mjög mikinn og góðan afrekslista í þessum málum.

En ég skil ekki hvers vegna hæstv. iðnrh. á að svara fyrir þetta. Ég skil ekki hvernig ég á að spyrja hæstv. iðnrh. út í þau atriði sem ég nefndi áðan. Í byggðaáætluninni er getið um að leggja eigi mat á kostnað samfélagsins vegna þeirrar búsetuþróunar sem orðið hefur frá árinu 1986. Spurning mín var um hvort lagt hefði verið mat á þá búsetuþróun, t.d. þegar þungaskattinum var breytt, þungaskattinum gagnvart sérleyfishöfum sem allir urðu að skila inn leyfum sínum og geta ekki rekið starfsemi sína vegna þess að styrkir eru meira að segja líka skornir niður. Þungaskatturinn íþyngir þeim svo að þeir hafa ekki nokkurn rekstrargrundvöll. Og skattheimtan á innanlandsflugið sem ríkisstjórnarflokkarnir samþykktu í gærkvöldi sem gerir það að verkum að innanlandsflug er að leggjast niður. Þetta þarf að spyrja hæstv. forsrh. út í. Mér finnst það mjög miður að hann skuli hafa nánast flúið af hólmi þegar búið er að setja þessi mál á dagskrá. Að ég tali ekki um að hann svari, láti apparatið í ráðuneyti sínu í Reykjavík svara skriflegri fyrirspurn um fjarvinnsluverkefnin og störf úti á landi. Ef svarið er að forsrn. sé svo fáliðað að það geti ekki svarað þessu, þá er hægt að benda hæstv. forsrh. á að fá einhverja utan af landi til að vinna þessi svör.