Fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:37:39 (7390)

2000-05-10 12:37:39# 125. lþ. 114.4 fundur 632. mál: #A fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., utanrrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:37]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara að rekja aðdraganda átakanna í Júgóslavíu en það er rétt að taka fram í upphafi að það var mat Atlantshafsbandalagsríkjanna að ástand mála í Kosovo væri slíkt að ekki væri lengur hægt að sitja hjá án aðgerða. Hins vegar er rétt að halda því til haga að Júgóslavíu var ekki sagt stríð á hendur.

Þegar Ísland gerðist aðili að Atlantshafsbandalaginu 1949 var sérstaða þess viðurkennd á eftirfarandi hátt:

1. Ef til ófriðar kæmi mundu bandalagsþjóðirnar óska svipaðrar aðstöðu á Íslandi og var í síðasta stríði, þ.e. í seinni heimsstyrjöldinni, og það mundi algerlega vera á valdi Íslands sjálfs hvenær sú aðstaða yrði látin í té.

2. Að allir samningsasðilar hefðu fullan skilning á sérstöðu Íslands.

3. Að viðurkennt væri að Ísland hefði engan her og ætlaði ekki að stofna her.

4. Að ekki kæmi til mála að erlendar herstöðvar yrðu á Íslandi á friðartímum.

Nefna má að í umræðum um málið vildu nokkrir þingmenn setja sem formlegt skilyrði fyrir aðild Íslands að Atlantshafsbandalaginu að viðurkennt yrði af öllum samningsaðilum sem samningsatriði sú sérstaða Íslands að það gæti aldrei sem vopnlaust ríki sagt öðrum þjóðum stríð á hendur né háð styrjöld, enda ætluðu Íslendingar sér ekki að hervæðast. Allar brtt. voru hins vegar felldar og var tillaga ríkisstjórnarinnar um að Ísland skyldi gerast stofnaðili að Atlantshafsbandalaginu samþykkt. Alþingi viðurkenndi þar með 30. mars 1949 skuldbindingar sem tengjast Atlantshafssamningnum og Ísland er ekki hlutlaust ríki.

Hernaðaraðgerðir Atlantshafsbandalagsins í Júgóslavíu byggðu á þjóðréttarlegum grunni, ályktun öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, nr. 1199 frá 23. september 1998, markmiðum og meginreglum sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem vitnað er til í inngangsorðum Atlantshafssamningsins og á ákvæðum alþjóðlegra sáttmála um grundvallarmannréttindi. Síðastnefnda atriðið vegur stöðugt þyngra í þjóðarréttinum og enginn vafi er á því að það ákvæði mun vega enn þyngra í framtíðinni.