Fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:40:20 (7391)

2000-05-10 12:40:20# 125. lþ. 114.4 fundur 632. mál: #A fyrirvari Íslands við Atlantshafssamninginn# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:40]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. utanrrh. fyrir svörin en ég get ekki sagt að ég telji að þau hafi kannski að fullu skýrt stöðu málsins. Ég tel að heppilegra hefði verið að hæstv. utanrrh. tæki af skarið um það afdráttarlaust að menn hefðu með vitund og vilja þrátt fyrir þær yfirlýsingar sem gefnar voru í aðdraganda þess að Ísland gerðist aðili að Norður-Atlantshafssáttmálanum ákveðið að hverfa frá þeirri stefnu sem þá var mótuð að Ísland tæki ekki þátt í hernaðaraðgerðum gegn öðrum þjóðum. Það var það sem gerðist óumdeilanlega, herra forseti, þegar loftárásir hófust á Júgóslavíu.

Hæstv. ráðherra segir að Júgóslavíu hafi ekki verið sagt stríð á hendur. Það er mjög athyglisverð yfirlýsing, herra forseti, og ég leyfi mér þá að spyrja að sjálfsögðu í framhaldinu: Hvað voru þá aðgerðirnar gegn Júgóslavíu á útmánuðum ársins 1999? Hvar í þjóðarréttinum koma fram heimildir til árása á sjálfstæð ríki án þess að um stríðsyfirlýsingu sé að ræða? Rennir þetta ekki, herra forseti, enn frekari stoðum undir þær efasemdir sem vaknað hafa um lögmæti aðgerðanna gagnvart Júgóslavíu eins og að þeim var staðið af hálfu árásaraðilanna? Víða um lönd standa harðar deilur og/eða málaferli eru í uppsiglingu einmitt vegna þess að þarna vilja menn meina að brotið hafi verið gegn einni af grundvallarreglum þjóðarréttarins þar sem farið var með vopnum gegn sjálfstæðri þjóð án undangenginna venjulegra aðgerða áður en til þess kæmi og án undangengins sérstaks samþykkis Sameinuðu þjóðanna áður en árásirnar hæfust.

Herra forseti. Mér finnst þetta dapurleg niðurstaða hvort tveggja í senn ef svo er að þarna hafi a.m.k. í pólitískum skilningi verið horfið frá þeirri stefnu sem mótuð var að Ísland færi ekki með hernaði gegn öðrum þjóðum og hefur þá síðasti fyrirvarinn af öllum sem settir voru og notaðir til þess að lokka menn inn í Atlantshafsbandalagið á sínum tíma verið svikinn.