Kærumál vegna ólöglegrar sölu á tóbaki

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:48:13 (7394)

2000-05-10 12:48:13# 125. lþ. 114.5 fundur 495. mál: #A kærumál vegna ólöglegrar sölu á tóbaki# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:48]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Í tilefni af fsp. hv. þm. var aflað upplýsinga um slík kærumál hjá ríkislögreglustjóra. Hann óskaði síðan upplýsinga frá öllum lögreglustjórum vegna fsp. þar sem umrætt mál er ekki sérgreint í málaskrá lögreglunnar.

Eftirfarandi mál hafa komið upp hjá einstökum embættum:

Í Vestmannaeyjum: eitt mál árið 1998 þar sem ekki var beitt sektum. Verslunareigandi var kærður fyrir sölu til unglinga.

Hvolsvöllur: Eitt mál, ekki beitt sektum.

Akureyri: Vitað er um fimm mál. Í nokkrum tilvikum hafa það verið unglingar sem seldu unglingum tóbak. Í einu tilviki var það eigandi sjoppu sem seldi unglingi tóbak.

Í svari lögreglustjórans í Reykjavík segir að samkvæmt gögnum embættisins hafi engin formleg kærumál borist embættinu vegna sölu á tóbaki til barna og unglinga. Hins vegar hafi nokkur fjöldi ábendinga komið til lögreglu frá tóbaksvarnanefnd og fleirum vegna slíkra tilvika. Samkvæmt 17. gr. laga um tóbaksvarnir, nr. 74/1984, séu það heilbrigðisnefndir en ekki lögregla sem hafi með þetta eftirlit að gera og því hugsanlegt að hjá þeim liggi fyrir einhverjar upplýsingar um þessi málefni. Lögreglustjórinn í Reykjavík hafi þó tekið þátt í aðgerðum til að hamla gegn sölu á tóbaki til ungmenna í samvinnu við tóbaksvarnanefnd og Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur. Megi í því sambandi nefna aðgerðir í mars 1999 þar sem fram kom að ungmenni undir aldri gátu keypt tóbak í 68% tilvika þar sem slíkt var reynt. Í kjölfar þessara athugana hafi viðkomandi verslunareigendum verið sendar ábendingar um málið og gildandi reglur verið ítrekaðar.

Í svari sýslumannsins á Akranesi kemur fram að ekki hafi komið upp kærumál sem hér er um að ræða. Hins vegar hafi, eftir ábendingum frá skólayfirvöldum, sölustaðir tóbaks verið reglulega heimsóttir af lögreglu til að árétta bann á sölu tóbaks til barna og unglinga.

Hv. þm. spurði einnig hversu oft sektum hafi verið beitt í þessu sambandi og hverjar upphæðir sektanna séu. Í ofangreindum málum var sektum beitt í einu máli á Akureyri, sekt að fjárhæð 10 þús. kr. þar sem eigandi sjoppu seldi unglingum tóbak.

Að lokum vil ég þakka hv. þm. fyrir þessa fsp. og að vekja athygli á málefninu. Hér er spurt um mál þar sem stjórnvöld verða vissulega að vera á varðbergi og skýrar reglur þurfa að vera um.