Reglur um öryggisbúnað í bifreiðum fatlaðra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 12:53:58 (7396)

2000-05-10 12:53:58# 125. lþ. 114.6 fundur 631. mál: #A reglur um öryggisbúnað í bifreiðum fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[12:53]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Það hefur lengi verið áhugamál ýmissa sem koma nálægt flutningum á fötluðu fólki og reka eða breyta bifreiðum sem eru sérútbúnar til slíks flutnings að reglur yrðu settar sem tækju til öryggis fatlaðra í slíkum flutningum, almennar reglur í ákvæðum um gerð og búnað ökutækja eða annars staðar sem tryggðu betur öryggi fatlaðra í umferðinni. Á þetta hefur skort og ég leyfi mér að halda því fram að framkvæmd þessara mála, bæði hvað varðar öryggisreglur og ýmislegt sem lýtur að greiðslu kostnaðar í þessu sambandi og snýr ekki að hæstv. dómsmrh. heldur hæstv. trmrh., sé ekki í nógu góðu horfi.

Ég hef því lagt fram tvær fsp. um þessu efni. Annarri er beint til hæstv. trmrh. en hinni til hæstv. dómsmrh., hún snýr að öryggisþáttum málsins og er svohljóðandi:

Er þess að vænta að dómsmálaráðuneytið setji sérstakar reglur um öryggisbúnað í sérútbúnum bifreiðum fatlaðra og bifreiðum til flutnings fatlaðra, svo sem um festingar hjólastóla, öryggisbelti fyrir fólk í hjólastólum og annað sem tryggt getur öryggi fatlaðra í umferðinni?