Hefting sandfoks

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:03:22 (7400)

2000-05-10 13:03:22# 125. lþ. 114.8 fundur 602. mál: #A hefting sandfoks# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:03]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Fyrsta spurning hv. þm. Ísólfs Gylfa Pálmasonar var:

,,1. Hver er reynslan af hækkun Sandvatns á Haukadalsheiði í heftingu sandfoks?``

Því er til að svara að Landgræðsla ríkisins lét vegna afar óstöðugs yfirborðs Sandvatns, tíðra moldroka á heiðinni og mikils framburðar í vatnið frá Hagafellsjöklum um Hagavatn og Farið, stífla útfall Ásbrandsár og Sandár haustið 1994. Nýtt útfall var gert og rennur það yfir í Sandá. Áður fyrr rauk sandur og leir úr vatnsbotninum til suðurs og suðvesturs eins og greinilega mátti sjá á gervitunglamyndum. Talið var að það áfok hamlaði uppgræðsluaðgerðum á svæðinu.

Landgræðsla ríkisins telur að við stækkun vatnsins hafi tekið fyrir sandfok af þessu svæði, sáningar hafi dafnað á fyrrverandi áfokssvæðum og sjálfgræðsla er komin vel af stað. Því má segja að aðgerðirnar hafi skilað jákvæðum árangri. Yfirborð vatnsins helst nokkuð stöðugt og urðu aðeins smávægilegar breytingar á yfirborðinu í hlaupinu 1999 við framrás eystri Hagafellsjökuls. Að mati Landgræðslunnar og heimamanna er árangur sýnilegur en formlegt mat eða rannsóknir á árangri hafa ekki farið fram, en gert er ráð fyrir að það verði gert þegar tíu ár eru liðin frá því að stíflað var.

Önnur spurning hv. þm. var:

,,2. Ef reynslan er jákvæð, hvar kemur víðar til greina að ráðast í framkvæmdir sem þessar til að hefta sandfok og jarðvegsfok?``

Því er til að svara að þrátt fyrir að talið sé að árangur sé jákvæður af breytingunum á Sandvatni, gefur það ekki tilefni til álita að allar slíkar aðgerðir skili árangri.

Mjög erfitt er án undangenginna rannsókna að segja til um hvar komi til greina að ráðast í framkvæmdir svipaðar og við Sandvatn, enda eru ekki mörg slík áform uppi hjá Landgræðslunni. Landgræðsla ríkisins ákvað t.d. að stífla fyrir afrennsli úr Hagavatni sem er jökullón við eystri og vestari Hagafellsjökla í Langjökli. Markmiðið var að sökkva gömlum botni Hagavatns frá því það var stærra og stöðva þannig áfok sem Landgræðslan telur að hamli því að hægt sé að stöðva uppblástursgeira sem ógnar gróðri á heiðunum upp af Biskupstungum og Laugardal. Þetta svæði skoðuðum við hv. þm. Ísólfur Gylfi Pálmason einmitt síðasta sumar. Við þessa aðgerð mundi Hagavatn stækka úr 5 km3 í 13 km3 sem er það mikil aðgerð að framkvæmdin fór í mat á umhverfisáhrifum.

Skipulagsstofnun féllst á aðgerðina með skilyrðum, en umhvrh. þáv. úrskurðaði eftir að kært var að framkvæmdin skyldi fara í frekara mat samanber nánara svar við fsp. á þskj. 917 sem fram verður borið hér á eftir.

Það er erfitt án undangenginna rannsókna að tilgreina hvar komi til greina að fara í svipaðar aðgerðir og við Sandvatn. Tryggja verður að stórar framkvæmdir sem breyta landslagi og geta haft aðrar víðtækar breytingar í för með sér skili þeim árangri sem til er ætlast.

Meta þarf heildstætt öll áhrif sem geta orðið af umfangsmiklum breytingum sem framkvæmdar eru í náttúrunni. Einnig þarf að meta hvort aðrar hefðbundnari landgræðsluaðgerðir skili ekki betri árangri miðað við kostnað. Allt þetta yrði að meta með hliðsjón af umhverfisáhrifum, sbr. lög nr. 63/1993, um mat á umhverfisáhrifum, sem við erum reyndar að öllum líkindum að fara að breyta hér á næstunni í þinginu.