Hagavatn á Biskupstungnaafrétti

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:10:55 (7403)

2000-05-10 13:10:55# 125. lþ. 114.9 fundur 603. mál: #A Hagavatn á Biskupstungnaafrétti# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:10]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er rétt sem hér kom fram hjá hv. þm. Ísólfi Gylfa Pálmasyni að það er búið að koma inn á þessi mál í svari við fyrri fsp. enda tengjast þessi mál mjög.

En hér er spurt:

,,1. Hvað líður rannsóknum á umhverfi Hagavatns á afrétti Biskupstungna?``

Því til að svara að hinn 16. október 1996 felldi þáv. umhvrh. úr gildi úrskurð skipulagsstjóra ríkisins frá 25. júlí sama ár og gerði Landgræðslu ríkisins að framkvæma frekara mat á umhverfisáhrifum stækkunar Hagavatns til þess að hefta sandfok. Í úrskurði ráðherrans kemur fram að rannsaka þurfi fok af því svæði sem til stendur að sökkva og sýna fram á að það sé meginuppspretta sandfoks á svæðinu suður og suðvestur af Hagavatni.

Samkvæmt upplýsingum Landgræðslu ríkisins er upplýsingaöflun lokið, svo og rannsóknum á gróðurfari. Rannsókn á sandfoki stendur enn yfir og verður lögð aukin áhersla á þann þátt í sumar og stefnt að því að ljúka rannsókninni í haust þannig að Landgræðslan geti lagt inn matsskýrslu fyrir eða um áramót.

Önnur spurningin hljóðar svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,2. Hvenær telur ráðherra að hægt verði að leggja fram nýtt umhverfismat þannig að hefja megi framkvæmdir við hækkun Hagavatns til þess að draga úr uppblæstri á Biskupstungnaafrétti?``

Því er til að svara að ef áætlanir standast, samanber það sem segir hér áður, þá ætti að vera hægt að leggja fram matsskýrslu um næstu áramót. Síðan færi hún í hefðbundið matsferli og niðurstaðan segði svo til um það hvort farið yrði í þessa framkvæmd og þá með hvaða hætti. Það er því undir umhverfismatinu og niðurstöðu þess komið. En miðað við upplýsingar Landgræðslu ríkisins ætti að vera hægt að leggja fram nýtt umhverfismat um áramótin.