Geysissvæðið í Biskupstungum

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:27:52 (7411)

2000-05-10 13:27:52# 125. lþ. 114.10 fundur 478. mál: #A Geysissvæðið í Biskupstungum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:27]

Fyrirspyrjandi (Ísólfur Gylfi Pálmason):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. umhvrh. fyrir ítarlegt og gott svar. Það var nýr tónn í svari hennar og ég er viss um að góð brýningarræða hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar í þessum efnum verður til að hleypa krafti og dug í okkur sem höfum áhuga á þessu máli. Ég þakka líka hv. þm. Kristjáni Pálssyni fyrir að sýna þessu merka máli þann áhuga sem hann gerir.

Það er auðvitað nauðsynlegt að semja við landeigendur um uppkaup á þessu svæði sem allra fyrst. Eins og margoft hefur komið fram er heimildarákvæði í 7. gr. fjárlaga til þeirra kaupa. Ég fagna því að nefndin skuli vera að störfum. En ég vil gjarnan brýna hæstv. ráðherra til að setja ákvæði um störf þessarar nefndar þannig að hún þurfi að ljúka störfum fyrir tilsettan tíma svo áfram sé hægt að vinna markvisst að þessu. Við getum ekki beðið jafnlengi og við höfum gert eins og fram kom í ágætri söguskýringu hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar.

Það var líka fróðlegt að heyra í svari hæstv. ráðherra að til stendur að framkalla ferðamannagos við Geysi. Fyrrv. oddviti Biskupstungna, Gísli heitinn Einarsson, var mikill áhugamaður um þetta mál. Ég veit að fjölmargir aðilar á svæðinu sem og hér á höfuðborgarsvæðinu, eins og kom fram, eru áhugamenn um þetta. Þessum nýja tón sem greina mátti í ræðu hæstv. umhvrh. um að framkalla gos í Geysi fagna ég sérstaklega. Ég tek undir það að við megum ekki fara offari í þessum efnum. Hér er um sérstakar náttúruperlur að ræða sem við þurfum að nýta enn betur en við gerum.