Notkun íslenskra veðurhugtaka

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:47:24 (7420)

2000-05-10 13:47:24# 125. lþ. 114.12 fundur 615. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HBl
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:47]

Fyrirspyrjandi (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Í 4. mgr. 44. gr. þingskapa segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

,,Síðari umræða fer eigi fram fyrr en einni nóttu eftir fyrri umræðu eða útbýtingu nefndarálits. Skal þá ræða tillögugreinar og breytingartillögur við þær. Þá er umræðu er lokið skal greiða atkvæði um hverja tillögugrein og breytingartillögur við þær og loks tillöguna í heild sinni. Við umræðuna gilda ákvæði 55. gr.``

Þetta hefur verið skilið svo þegar um lagafrv. er að ræða að ef frv. liggur fyrir samþykkt þá er litið svo á að Alþingi hafi tekið afstöðu til málsins og síðan segir forseti að fyrirsögn skoðist samþykkt nema aðrar athugasemdir komi fram. Á hinn bóginn hafa þingsköp orðið með þeim hætti varðandi þáltill. að greidd eru atkvæði á ný um tillgr. og fyrirsögnina saman þó svo að tillgr. hafi áður verið ákveðin með meiri hluta Alþingis.

Þessi framkvæmd er að mínu mati mjög vafasöm og ég tel óhjákvæmilegt að við endurskoðun þingskapa verði tekið á þessu máli og er auðvitað ástæða til þess vegna þeirrar till. til þál. um notkun íslenskra veðurhugtaka sem kom til atkvæða fyrir skömmu þegar tillgr. var samþykkt með 22 atkvæðum en tillagan síðan í heild sinni felld með 21 atkv. og litið svo á að Alþingi hefði ekki vilja í málinu heldur væri viljalaust í málinu.

Nú er það svo að fyrirbæri af þessu tagi hefur áður komið fyrir. Á árinu 1922, 3. mars, var tekið frv. til laga um afnám kennarastóls í klassískum fræðum við Háskóla Íslands, frv. var samþykkt af Alþingi, en á hinn bóginn var fyrirsögn frv. felld. Um þetta sagði forseti á þeim tíma, með leyfi hæstv. forseta, Benedikt Sveinsson, forseti neðri deildar: ,,Það er svo um þetta frumvarp að ekki er hægt að lýsa heiti þess, þar sem hv. deild gekk svo frá því við 2. umr. að nema brott fyrirsögn þess.`` Og hv. þm. Sigurður Stefánsson talaði um að frv. væri ,,uden hoved og hale``.

Nú er auðvitað hægt að segja það um þetta mál, afstöðu Alþingis til þess hvernig veðurlýsingar skuli vera, að það er ,,uden hoved og hale``. Það er a.m.k. alveg ljóst og fer kannski vel á því að nota dönsk orð eða dönskublending til þess að lýsa afstöðu málsins vegna þess áhugaleysis sem fram kom hér við þessa atkvæðagreiðslu fyrir því að Veðurstofan og Ríkisútvarpið gerðu sitt til að halda við málvitund og málsmekk Íslendinga.

Ég ætla að minna á eitt að lokum, herra forseti. Í ræðu hæstv. umhvrh. Sivjar Friðleifsdóttur 18. nóvember 1999 segir svo:

,,Það þykir hins vegar ekki ástæða til þess að nota önnur heiti, svo sem andvari, kul, gola, stinningsgola, kaldi og stinningskaldi, enda sum heitin lítið sem ekkert þekkt til að nota sem ákveðinn vindstyrk.``

Þetta eru ummæli hæstv. ráðherra um heiti sem hafa verið notuð margsinnis á dag í útvarpinu og öllum landsmönnum verið hægt að fylgjast með. Þess vegna hef ég lagt fram þá fsp. sem hér liggur fyrir.