Notkun íslenskra veðurhugtaka

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 13:54:51 (7422)

2000-05-10 13:54:51# 125. lþ. 114.12 fundur 615. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., KPál
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[13:54]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Halldóri Blöndal fyrir að vekja athygli á málinu. Það var með eindæmum hvernig atkvæðagreiðslan fór og út af fyrir sig ekkert við því að segja annað en að þetta er svona klúður í þingsköpum. Auðvitað var búið að samþykkja málið.

Það er dálítið merkilegt að heyra hæstv. umhvrh. hlakka yfir þessu og vera afskaplega ánægð með að þó skuli vera hægt að leggja af nokkur gömul, góð íslensk orð, og þar með hennar kotrosknu aðstoðarmenn sem misnotuðu aðstöðu sína í sjónvarpi til að mæla sérstaklega gegn þessu frv. Mér fannst ansi langt gengið af hálfu ráðuneytisins að senda undirmenn sína til að vinna gegn málinu í veðurfréttatíma sjónvarps.

Ég vona svo sannarlega að við þurfum ekki að standa frammi fyrir slíku máli aftur að Alþingi sé á móti því að viðhalda íslenskri tungu. Hvað er heilagra en íslensk tunga í hugum alþingismanna?