Notkun íslenskra veðurhugtaka

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:00:33 (7426)

2000-05-10 14:00:33# 125. lþ. 114.12 fundur 615. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:00]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ég gerði grein fyrir atkvæði mínu á sínum tíma þegar umrædd þáltill. kom til kasta Alþingis og studdi hana. Ég vil vekja athygli á því að enginn er að mæla gegn því að alþjóðlegir staðlar verði notaðir enda segir í greinargerð með þáltill. að markmiðið með henni sé að hvetja til þess að íslensk veðurhugtök verði notuð samhliða alþjóðlegu einingakerfi til að lýsa veðurhæð. Lögð er áhersla á að viðhalda fjölbreytileika íslenskrar tungu jafnframt notkun alþjóðlegra skilgreininga. Þótt ég taki undir það að þessi mál verði ekki til lykta leidd með tilskipunum eða lögum þá mundi ég vilja beina því til hæstv. umhvrh. að hún beindi því til Veðurstofu Íslands og veðurfræðinga að þeir störfuðu í anda þeirrar þáltill. sem hér var tekin til afgreiðslu í þinginu og er til þess fallin að stuðla að fjölbreytileika íslenskrar tungu.