Notkun íslenskra veðurhugtaka

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:04:09 (7428)

2000-05-10 14:04:09# 125. lþ. 114.12 fundur 615. mál: #A notkun íslenskra veðurhugtaka# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:04]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Þessi umræða verður æ fróðlegri og fróðlegri. Það kom fram í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar að ég hlakkaði eitthvað sérstaklega yfir þessu máli. Það er alls ekki svo. Ég hlakka alls ekki yfir því. Ég bara dreg hér fram hvað þessi atkvæðagreiðsla var kostuleg. Ég tel alveg að menn gætu skoðað hvort það sé eðlilegt að greiða tvisvar sinnum atkvæði um nánast sama málið. Er það eðlilegt? Þá getur svona gerst eins og við lentum í.

Vilji þingsins er, eins og hv. þm. Halldór Blöndal sagði réttilega, tvíbentur. Það var svona helmings munur. Helmingurinn studdi málið og helmingurinn var andsnúinn því. Þarna munar bara einu atkvæði til og frá í þessum tveimur atkvæðagreiðslum. En niðurstaðan var sú að málið var fellt. Það var hin endanlega niðurstaða og þar við situr.

Hér kom einnig fram að ráðuneytið hafði sent sína undirmenn með málið í sjónvarp. Ég kannast nú ekki við það. Ég veit ekki hvað hv. þm. Kristján Pálsson var að fara með því.

Svo sagði hv. þm. Guðjón Guðmundsson í umræðunni að hæstv. umhvrh. eða sú er hér stendur væri að verja dellu. Það er alls ekki svo. Og að hv. þm. hefði varla hitt nokkurn mann sem væri sammála um að rétt væri að gera þetta, að hér væri um mistök að ræða. Ég vil þá benda á að hér inni er um það bil helmingur þingmanna sem styður ekki málið og hv. þm. Guðjón Guðmundsson hefur nú hitt þennan helming. Það er alveg ljóst að vilji þingsins er tvíbentur en niðurstaðan er skýr. Málið var fellt og þar við situr. En að sjálfsögðu geta þingmenn komið með málið til frekari umfjöllunar á næsta þingi. Málið er skýrt að því leyti að það var meirihlutaákvörðun að fella það endanlega í þinginu.