Aðild að verkefninu Maður - nýting - náttúra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:28:38 (7437)

2000-05-10 14:28:38# 125. lþ. 114.14 fundur 444. mál: #A aðild að verkefninu Maður - nýting - náttúra# fsp. (til munnl.) frá landbrh., Fyrirspyrjandi JB
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:28]

Fyrirspyrjandi (Jón Bjarnason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. landbrh. fyrir undirtektir hans og það að hann er að beita afli sínu til að ráðuneyti hans fái fulla aðild að verkefnisstjórninni. Ég tel afar mikilvægt, herra forseti, að um fulla aðild að verkefnisstjórninni verði að ræða í þessi verkefni því að þetta lýtur markvisst að verkefnum landbúnaðarins og landnýtingarinnar og allra þeirra sem nýta þessi sömu gæði með sjálfbæra þróun að leiðarljósi sem er virkilega sterk og góð framtíðarsýn.

Ég legg líka áherslu á, herra forseti, að það fjármagn sem er til ráðstöfunar sem hæstv. ráðherra tæpti á að gæti verið um 100 millj. kr. og vinna á heilmikið rannsóknarstarf, að einmitt stofnanir landbúnaðarins, stofnanir úti um land, ekki síst á vegum landbrn., eru einmitt hvað færastar til að vinna slíkar rannsóknir og/eða taka að fullu þátt í þeim. Það er því afar mikilvægt, bæði faglega og líka fyrir verkefnið sem slíkt og fyrir trúnað þess og einnig fyrir þessar stofnanir sem er afar mikilvægt að komi að slíkum rannsóknarmálum. Þarna er um töluvert fé að ræða og skiptir afar miklu máli hvernig því er ráðstafað.

En ég legg áherslu á, herra forseti, að þetta mikilsverða mál þarf að vinnast í sem bestum trúnaði við alla þá sem að því koma því að áhugi þeirra er virkilega fyrir hendi.