Vinnureglur Tryggingastofnunar um bifreiðar fatlaðra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:52:01 (7447)

2000-05-10 14:52:01# 125. lþ. 114.20 fundur 633. mál: #A vinnureglur Tryggingastofnunar um bifreiðar fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:52]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég hef lítillega reynt að kynna mér framkvæmd mála sem lúta að stöðu fatlaðra í umferðinni, varðandi gerð og búnað ökutækja, öryggismál og einnig kostnað samfara því að breyta bifreiðum fatlaðra. Ég hef einnig skoðað þær vinnureglur sem Tryggingastofnun ríkisins notast við í sambandi við endurgreiðslu eða mat á þörf fyrir slíkar breytingar og endurgreiðslu slíks kostnaðar. Fyrr í dag var til umfjöllunar fyrirspurn frá mér um tengt mál, þ.e. öryggisatriði þessu samfara sem ég spurði hæstv. dómsmrh. um.

Þær spurningar sem ég vil beina til hæstv. heilbr.- og trmrh. í þessu sambandi tengjast þeirri tilfinningu minni eða mati að þörf sé á að endurskoða framkvæmd og reglur á þessu sviði, reyna að koma þar á fastmótaðra verklagi og tryggja betur stöðu þeirra sem þurfa á þessu að halda. Ég vil leggja á það sérstaka áherslu, herra forseti, að um er að ræða afar mikilsverðan þátt í átaki til að gera fötluðum fært að vera fullgildir þátttakendur í samfélaginu, að þeir geti farið um og eftir því sem nokkur kostur er sjálfir komið sér áfram í umferðinni. Ef þeir þurfa á aðstoð eða stuðningi við flutning að halda þurfa einnig að vera um það skýrar reglur. Þeir verða að eiga kost á slíkri þjónustu, öryggi þeirra að vera tryggt, kostnaðurinn viðráðanlegur og annað í þeim dúr.

En á fsp. sem ég hef beint til hæstv. trmrh. eru eftirfarandi spurningar:

1. Er ráðherra tilbúinn til að beita sér fyrir endurskoðun á vinnureglum Tryggingastofnunar ríkisins við mat á þörf fyrir sérútbúnað eða breytingar á bifreiðum fatlaðra?

2. Hvenær voru reglur um greiðslu kostnaðar í þessu sambandi síðast endurskoðaðar og upphæðum breytt?

3. Telur ráðherra koma til greina að sérstök nefnd eða óháður aðili meti þörf fyrir sérútbúnað eða breytingar í einstökum tilvikum og fylgist með tæknilegum lausnum og hvernig þær nýtast?