Vinnureglur Tryggingastofnunar um bifreiðar fatlaðra

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 14:59:04 (7449)

2000-05-10 14:59:04# 125. lþ. 114.20 fundur 633. mál: #A vinnureglur Tryggingastofnunar um bifreiðar fatlaðra# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SJS
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[14:59]

Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Það gleður mig að nokkur hreyfing virðist á þessum málum einnig í tilviki Tryggingastofnunar og hjá hæstv. heilbr.- og trmrh. ekki síður en hjá hæstv. dómsmrh. eins og fram kom fyrr í dag.

Það er ánægjulegt að starfshópur skuli vera í gangi og þaðan sé að vænta tillagna sem taki á þessum málum, enda tel ég mig hafa komist á snoðir um að á því sé full þörf. Ég teldi að mörgu leyti mjög heppilegt að stefnt yrði að sérstökum reglum um þetta svið með svipuðum hætti og gert væri varðandi öryggisþáttinn þeim megin.

Í öðru lagi, varðandi upphæðir og þá endurskoðun þeirra sem að hluta til fór fram 15. október sl., er vel að þar voru tekin inn ný atriði og annað hækkað en mér býður einnig í grun að ýmsar upphæðir eða þök sem fyrir voru hafi áfram staðið óbreytt. Ég tel að þörf væri á heildarendurskoðun þeirra mála. Þannig hafa til að mynda verið í gildi reglur um að greiða ætti 100% kostnaðar vegna ýmissa breytinga á bifreiðum eins og vegna hemla og bensíngjafar en í framkvæmdinni hefur verið sett þak á upphæðir þannig að iðulega, ef um kostnaðarsamar lausnir hefur verið að ræða, hefur þetta hlutfall orðið miklu lægra.

Í þriðja lagi varðandi spurningu mína um hvort sérstök nefnd fylgdist með þessum málum og væri þarna til ráðgjafar og mats. Ég held mig enn við að skoða eigi þann kost að sjálfstæður, óháður aðili --- þá er ég að hugsa um hinar tæknilegu lausnir, framkvæmd þeirra og mat á kostnaðarþörfinni en ekki ökuhæfismatið sem ég fagna að komið sé fyrir í samningi --- komi til þannig að óháður sjálfstæður milliliður sé á milli þessara aðila, notenda, þeirra sem sérhæfa sig í hinum tæknilegum lausnum og hins vegar Tryggingastofnunar og ráðuneytis sem sér um greiðslu kostnaðar.