Flutningur eldfimra efna um Hvalfjarðargöng

Miðvikudaginn 10. maí 2000, kl. 15:05:28 (7452)

2000-05-10 15:05:28# 125. lþ. 114.15 fundur 507. mál: #A flutningur eldfimra efna um Hvalfjarðargöng# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 114. fundur, 125. lþ.

[15:05]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. fyrir þessar fyrirspurnir sem hljóða eins og hann gerði grein fyrir.

Spurt er: Eru í gildi reglur um flutning á bensíni, gasi og öðrum eldfimum efnum um Hvalfjarðargöng?

Því er til að svara að lögreglustjórinn í Reykjavík hefur að fenginni tillögu vegamálastjóra takmarkað flutning á hættulegum farmi um Hvalfjarðargöng, samanber auglýsingu um umferð í Reykjavík, nr. 373 frá 19. júní 1998. Samkvæmt auglýsingunni er flutningur á hættulegum farmi bannaður á álagstíma venjulegrar umferðar. Bannið gildir frá kl. 10 á föstudögum til kl. 24 á sunnudögum allt árið. Bannið nær yfir lengri tíma um páska, hvítasunnu og verslunarmannahelgi.

Í öðru lagi er spurt: Telur ráðherra koma til álita að banna flutninga sumra efna um göngin? Ekki eru þekkt dæmi þess erlendis frá að flutningur eldfimra efna um jarðgöng sé alfarið bannaður þar sem umferð er innan við 3 þúsund bílar á dag að meðaltali og aðrar aðstæður svipaðar og í Hvalfjarðargöngum. Víða eru engar takmarkanir á slíkum flutningi nema þar sem umferð er 5--10 sinnum meiri en í Hvalfirði og þá eru þessir flutningar leyfðir á ákveðnum tímum eða undir sérstöku eftirliti. Þekkt eru dæmi um göng þar sem umferð er meiri en 50 þúsund bílar á dag og þar sem flutningur hættulegra efna er bannaður. Tekið skal fram að margs konar annar flutningur en bensín, gas og olíur getur verið mjög eldfimur. Ef fylgja ætti eftir banni á flutningi eldfimra efna um Hvalfjarðargöng, þyrfti að hafa eftirlit með öllum flutningabílum.

Undanfarin ár hefur verið unnið á vegum OECD að viðamiklu verkefni um flutning hættulegra efna í jarðgöngum. Vegagerðin fylgist með því verkefni. Reiknað er með að tillögur verði lagðar fram í árslok 2000 eða núna í lok þessa árs. Ekki er óeðlilegt að bíða eftir niðurstöðum úr þeirri vinnu áður en breytingar verða undirbúnar eða tekin afstaða til þeirra hér á landi.

Ég vil undirstrika að ég tel afskaplega mikilvægt að fara varlega og setja reglur heldur strangari en hitt því að þarna þarf að gæta fyllsta öryggis. Þegar þessar athuganir liggja fyrir mun ég leggja á ráðin um það hvernig skuli fara að og hvort þær tillögur sem koma út úr þessari umfjöllun á vegum OECD yrðu gagnlegar fyrir okkur og þá hvort settar yrðu e.t.v. strangari reglur en þar kæmi fram. En þetta er sem sagt verið að skoða og Vegagerðin mun fylgjast grannt með þessu en þarna þarf auðvitað að hafa náið samstarf við forsvarsmenn hlutafélagsins Spalar því að það eru hagsmunir þess félags að öryggi sé sem allra best og mest í göngunum.